154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Ég er alveg sammála að auðvitað þurfum við að gera miklu betur í að beina í ívilnunum þangað sem þeirra er þörf og svo sannarlega hér á höfuðborgarsvæðinu eigum við að fara að setja miklu meira púður í að gera fólki kleift að nýta sér bara reiðhjól eða það að ganga. Þessi nýju rafmagnshjól eru auðvitað ekkert hjól á sterum, þetta er eiginlega bara nýtt samgöngutæki.

Mig langar að ræða aðeins við þingmanninn um hvort við hugsum hlutina alltaf alveg til enda þegar við erum að tímasetja markmið, það er nauðsynlegt að setja tímasett markmið en hvort við hugsum þau nógu langt. Ég held að við séum ekki alltaf að tryggja fólki möguleikana á því að breyta hegðun sinni og neyslu. Við eigum nýtt og skemmtilegt orð sem heitir flugviskubit sem vísar til þess að almenningi líður illa ef hann getur ekki hegðað sér skikkanlega í þágu náttúrunnar. Við höfum jafnvel séð einstök sveitarfélög hreykja sér af því að vera að rafvæða hafnir og tala þá um að þau séu með eitthvert frumkvæði. Þau eru vissulega með frumkvæði en frumkvæðið kemur vegna þess að þeim er gert það kleift vegna þess að tengikerfið okkar er bara þannig. Önnur sveitarfélög hafa bara engan möguleika á því.

Annað sem mér dettur í hug er varðandi einmitt þessa rafmagnsbíla og vistvænni bíla. Það er enginn bíll vistvænn en vistvænni bílar, skulum við segja, það eru bara mjög stórir skallablettir víða um land þegar kemur að möguleikum á því að hlaða og tengja. Og ef hinn frjálsi markaður getur ekki leyst það sér þingmaðurinn fyrir sér að við getum t.d. fengið Landsnet eða eitthvert opinbert apparat til að grípa inn í þar sem er markaðsbrestur og a.m.k. lækka þá tengigjöldin þannig að fyrirtækin geti auðveldlegar sett upp víðar tengistöðvar?