154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Það eru tvö atriði þarna sem mig langaði sérstaklega að koma inn á. Í fyrsta lagi varðandi flugviskubitið. Nú er hv. þm. Akureyringur og þarf þess vegna vinnu sinnar vegna að fljúga til Reykjavíkur, er stórnotandi á flugi. Það er eiginlega ekkert mikið annað í boði. Við erum búin að byggja upp samgöngukerfi þar sem þú getur annaðhvort farið á einkabíl á milli Akureyrar og Reykjavíkur eða þú getur flogið. Hvorugt er „ideal“ kostur. Það er strætó hins vegar sem gengur þarna á milli. Hvað er hann, tíu klukkutíma eða átta? (LE: Átta.) Átta klukkutíma og kostar ekkert svo mikið minna en flugmiði. Munurinn er eiginlega bara furðulega lítill. Við þurfum að endurhugsa almenningssamgöngur um allt land, einhvers konar strætó á sterum sem getur bundið í alvöru saman landshlutana. Af hverju förum við ekki að skoða næturstrætóa eins og eru í Noregi? Ef þú býrð einhvers staðar um miðjan Noreg þá geturðu bara farið í strætó að kvöldi og leggst þar í rúm og þér er ekið til Óslóar. Þangað koma næturstrætóar af öllu landinu, skila fólki til Óslóar, það getur gert það sem það þarf að gera yfir daginn og tekur svo næturstrætó heim aftur. Þetta er alla vega valkostur sem fólk ætti að hafa.

Síðan varðandi hleðsluinnviðina fyrir rafbíla, sem ég er algerlega sammála um að séu ekki komnir á þann stað sem þeir ættu að vera, þá getum við horft til ESB. Í Brussel er verið að ganga frá reglum um gæði stofnvega þar sem ákveðinn þéttleiki á (Forseti hringir.) hraðhleðslustöðvum er hluti af viðmiðinu. Það mega ekki vera meiri en 60 km á milli stöðva af ákveðnum styrk (Forseti hringir.) og 150 km á milli enn sterkari stöðva. Svona þurfum við. Þarna þarf ríkið að stíga inn, ekki endilega með allar framkvæmdirnar og peninginn heldur með staðlana og reglurnar.