154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú bara að taka undir með hv. þingmanni. Þessi skekkja í búsetumynstri býr náttúrlega til ekki bara óhagræði heldur líka alls konar flöskuhálsa í kerfinu. Það að vera með þungamiðju alls heilbrigðiskerfisins á höfuðborgarsvæðinu er ekki „ideal“ form á því kerfi. Í rauninni er þetta á landsvísu bara sami vandi og við er að eiga á höfuðborgarsvæðinu þar sem öll byggð er austan megin en vinnustaðir vestan megin á nesinu. Skölum þetta upp á landið allt og þá er fólk farið að flakka á milli póla með sama hætti. Fyrir nokkrum árum fannst mér ég vera voðalega fyndinn þegar ég velti því upp hvað við myndum við gera þegar Íslendingar yrðu milljón manns, mér fannst það eitthvað svo fjarstæðukennt en nú erum við allt í einu að verða 400.000. Við þurfum bara að gera eitthvert plan fyrir milljón og það plan getur ekki verið að drita fólki niður í sömu dreifingu (Forseti hringir.) og er í dag heldur er milljón manna Ísland með Akureyri sem borg, (Forseti hringir.) Egilsstaði væntanlega líka, Árborg sem eitthvert metrópólís. Við þurfum einmitt að hugsa þetta næstu áratugi.