154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi hver það er sem ætti að byggja upp þéttriðið net hraðhleðslustöðva um landið. Ég er ekkert viss um að það sé endilega Landsnet en það er spurning hvort Landsnet gæti haft eitthvert svona — nei, kannski væri það Orkustofnun frekar sem ætti að stýra þar málum. Framkvæmdaraðilinn gæti síðan verið einhver veitufyrirtæki. En þetta eru allt útfærsluatriði. Mér finnst skipta máli í þessu að við setjum niður eitthvert skýrara plan. Það er heilmikil þróun að eiga sér stað. Við sjáum að olíufyrirtækin eru t.d. farin að breyta sínum bensínstöðvum hér á höfuðborgarsvæðinu í hleðslustöðvar, þau sjá að þar liggur framtíðin. En við erum samt enn þá með gloppur á þjóðvegunum úti um landið þar sem markaðurinn er kannski ekki jafn skýr. Það leiðir náttúrlega til þess að fólk í dreifðari byggðum getur ekki tekið þátt í grænum umskiptum með sama hætti og við sem búum hérna í þéttbýlinu. Þótt þau glöð vildu þá eru þau bara ekki með aðstöðuna til að hlaða þegar þau fara á milli staða. Þetta er eitthvað sem þarf að bæta úr.

Varðandi bílana þá tók Ísland mjög vel við sér í rafbílavæðingu en vandinn er að Ísland er líka enn þá rosalega duglegt að fjölga bensín- og dísilbílum. Samhliða rafbílavæðingunni hefur því ekki átt sér stað samdráttur í hinum bílunum sem hefði þurft og það er dálítið knýjandi vandamál. Fyrir ári kynnti Orkustofnun orkuskiptalíkan sitt og einn af fyrirlestrunum var undir yfirskriftinni: Er pláss fyrir einn bensínbíl til viðbótar? Þau bara hentu því inn í líkanið og svarið var nei, (Forseti hringir.) vegna þess að þessir bílar eru á götunum í kannski áratug. Ef við ætlum að standast markmiðið fyrir 2030 þá er eiginlega ábyrgðarhluti að hleypa einum einasta bensínbíl á göturnar árið 2023 af því að þeir verða enn til staðar þá.