154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Jú, hvata er þörf en það mega ekki bara vera hvatar. Ég held að við megum sletta latínu í ræðustól en hagfræðingarnir hjá Alþjóðabankanum tala stundum um „bonus malus“-kerfi, að til þess að ná fram hröðustu breytingum á kerfum þurfi bæði að vera með hvata og einhvers konar, ég vil ekki kalla það refsivönd en það er eitthvað öfugt við hvata. Þannig nærðu fram hámarksáhrifum. Varðandi rafbílana t.d. eða orkuskipti í vegasamgöngum þá erum við bara búin að vera með bónushlutann, við erum bara búin að leggja til styrki til ýmissa fyrirtækja, við erum búin að vera með ívilnanir hjá þeim sem kaupa hreinorkubíla. Hin hliðin hefur algerlega verið vanrækt og fyrir vikið hefur þetta verið nokkuð útgjaldaþungt fyrir ríkið. Eðlilegra hefði kannski verið að trappa í rólegheitum upp kolefnisgjöld á mengandi bílana og nota þær tekjur til að styðja við uppbygginguna hinum megin og ekki bara beint í vasa bíleigendanna heldur til að byggja upp innviðina sem þarf að stóla á. Það sem við, sem hið opinbera, þurfum líka að gera er að við þurfum að byggja upp valkostina. Ef við viljum koma fólki ekki bara út úr bensínbílum heldur rútubílum almennt þá þurfum við að gera fólki það kleift með því t.d. að hraða framkvæmdum við borgarlínu eins og við getum og með því að byggja upp strætókerfið hér á höfuðborgarsvæðinu og um allt land eins mikið og við getum samhliða því. Leið 55 til Keflavíkur er uppáhaldsdæmi okkar sumra um leið sem ætti að vera hryggjarstykkið í strætókerfi á Íslandi en er það ekki. (Forseti hringir.) Það er eitthvað skakkt við að leið sem gengur frá miðbæ Reykjavíkur til Keflavíkurstöðvar sé jafn léleg og leið 55. Síðan er arðbærasta fjárfestingin (Forseti hringir.) í samgönguinnviðum peningar í göngu- og hjólastíga og að hjálpa fólki að komast þannig á milli staða.