154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ef við hugsum okkur bara aðstæðurnar sem við erum að búa til fyrir fólkið sem kemur á eftir okkur, fólkið sem tekur við búi hérna ef við klúðrum loftslagsmálunum, þá held ég að það að keyra um á aðeins eldri bílum en við myndum vilja sé léttvæg fórn og eitthvað sem við þyrftum að skoða með opnum huga, hvort sem við búum á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Svo er náttúrlega markmiðið ekki bara að skipta út mótornum í ökutækinu, það er líka að breyta samgöngumynstrinu þannig að ökutækjunum fækki. Við þurfum ekki bara hreinni bíla, við þurfum færri bíla. Þar er höfuðborgarsvæðið í sérstaklega góðri aðstöðu til að (Forseti hringir.) ná fram stórum breytingum á stuttum tíma. Í þéttbýlinu er hægt að gera fólki auðvelt að komast á milli staða bíllaust.