154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er talað um rangfærslur. Það sem ég sagði um lækkun útgjalda til ákveðinna verkefna er bara beint upp úr þessu plaggi hérna, fjárlagafrumvarpi og greinargerð þess. Hv. þingmaður getur bara flett þessu öllu upp, getur skoðað nákvæmlega hvað ég sagði, flett nánast orðrétt sömu setningum upp, fundið þær í þessu ágæta plaggi.

Já, það er verið að auka framlög til heilbrigðismála, þó það nú væri. Mikið af því fer í nýjan spítala, sem er vel. Það breytir því ekki að það ríkir kerfislægur vandi í heilbrigðiskerfinu vegna viðvarandi vanfjármögnunar og manneklu. Það eru langir biðlistar eftir þjónustu, það hefur skort á samhæfingu og að þjónusta sé veitt á réttu þjónustustigi.

Hv. þingmaður talaði hér um einkarekstur. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er staðreynd. Samfylkingin ætlar ekki að breyta því. Samfylkingin ætlar ekki að skrúfa fyrir einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, svo sannarlega ekki. Það sem hefur hins vegar vantað upp á er að það sé almennilegt eftirlit með þessum einkarekstri. Þar hefur t.d. sjúkratryggingastofnunin ekki haft burði til að sinna sínu hlutverki, enda sagði fyrrverandi forstjóri Sjúkratrygginga sig frá því hlutverki einmitt með þeim orðum að stofnunin væri í raun ófær um að sinna lögbundnum skyldum vegna vanfjármögnunar. Þannig að ef ætlunin er að nýta peninga í heilbrigðiskerfinu vel — það er ekki bara hægt að dæla peningum endalaust í heilbrigðiskerfið, það þarf líka að nýta peningana vel. Þess vegna höfum við t.d. kallað eftir innri endurskoðun á Landspítala. Það hefur strandað á fjármálaráðuneytinu sem hefur enn ekki sett reglugerð og viðmið sem nauðsynleg eru til þess að koma upp slíku eftirliti. Ef við ætlum að nýta peninga vel þá þurfum við einmitt að styrkja rekstur Sjúkratrygginga. Það mun kannski kalla á einhver útgjöld til skamms tíma en borga sig margfalt til lengri tíma til að stuðla að betri nýtingu fjármuna.