154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:47]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er auðvitað hv. þingmaður svolítið að slást við einhverja strámenn hérna, að láta eins og hennar flokkur hafi einhvern einkarétt á því að byggja á faglegri vinnu og samtali við fólk þegar ég segi að við ættum kannski ekki að bíða heilu og hálfu kjörtímabilin og vera bara með einhverja samtalshópa að störfum, í staðinn fyrir að mæta undirbúin til leiks. Mikið af þessu samtali er eitthvað sem er eðlilegt að eigi sér stað fyrir kosningar. Það er eðlilegt að flokkar mæti til leiks og viti nokkurn veginn, séu a.m.k. með einhverja heildarsýn á það hvernig eigi að gera hlutina sem svo er hægt að bera undir og eiga samtal um við hagsmunaaðila og þar fram eftir götunum. (JSkúl: Matvælaráðherra framkvæmir þá stefnu.) Já, eins og ég segi og hef sagt hér, ég óska ykkur góðs gengis við að ná fram auknum veiðigjöldum. Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir því að það sé sérstaklega gert með m.a. álagi á stærri útgerðir, það er sú leið sem hefur hugnast okkur best, enda eru þær svo sannarlega aflögufærar.