154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

fjármagn til meðferðarúrræða fólks með fíknivanda.

[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þessa fyrirspurn. Fyrst vil ég svara því skýrt að við erum ekki að draga úr framlögum til SÁÁ um kaup á þessari þjónustu. Það er hins vegar rétt að það gerist sjálfkrafa á hverju ári að tímabundin framlög falla sjálfkrafa niður þegar fjárlagafrumvarp kemur fram. Framlög til SÁÁ, sem sinna þessari mikilvægu þjónustu eða hluta af þeirri mikilvægu þjónustu sem við kaupum, eru tæpir 1,4 milljarðar. Þar af voru 120 millj. kr. tímabundið fjármagn til rekstrar sem þingið samþykkti hér. Sú tímabundna fjárveiting fellur niður og er ekki varanleg. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 tekur stóri samningurinn, þessir 1,4 milljarðar í fjórum samningum, hækkunum í samræmi við hækkun vísitalna.

Síðan vil ég bæta því við varðandi SÁÁ, að í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir við SÍ kaupum við viðbótarþjónustu vegna ópíóíðafaraldurs sem ríkisstjórnin samþykkti að gera til að sporna gegn honum og faraldri annarra vímuefna. Verið er að útfæra þá vinnu nánar í samráði við hagaðila og fleiri aðila þess efnis. Stefnt er að því að taka þessa fjóra samninga sem liggja undir í einn samning, en það er ekki verið að draga úr þessum framlögum svo að það sé skýrt.