154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

fjármagn til meðferðarúrræða fólks með fíknivanda.

[15:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Guð minn almáttugur hvað það var rosalega sorglegt að hlusta á þetta svar. Ég er einfaldlega að spyrja um hvað verið sé að gera núna til að koma í veg fyrir þennan ótímabæra dauða. Hvað er verið að gera núna til að tryggja að eftirmeðferðarstofnun eins og Vík þurfi ekki að taka sex vikna sumarfrí vegna þess að það eru ekki fjárveitingar til þess að halda úti þessari lífsnauðsynlegu þjónustu? Hvernig í ósköpunum stendur á því að við erum að glíma hér við og tala um krónur og aura? Jú, það er rangt hjá hæstv. ráðherra, með fullri virðingu — það er verið að draga úr fjárframlögum. Ég veit ekki betur en að t.d. Krýsuvík sé ekki að fá þær 150 milljónir sem hún fékk í fyrra. Ég veit ekki betur, samanber fjárlagafrumvarpið.

En ég segi ekkert annað en það, mín spurning snýst um það: Hvað erum við að gera núna í dag til að stíga inn í þennan vanda og koma í veg fyrir fleiri ótímabær dauðsföll? Hvað erum við að gera í dag til að taka utan um fólkið okkar sem biður um hjálp? Hvað erum við að gera í dag til að koma í veg fyrir það að á morgun, hæstv. ráðherra, deyi einhver á biðlista þar sem hann er að biðja um hjálp?