154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

fjármagn til meðferðarúrræða fólks með fíknivanda.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns. Það er ágætt að nefna líka að lokunin á Vík, þar sem er eftirmeðferð, er sjálfstæð ákvörðun SÁÁ og það er enginn í ráðuneytinu spurður að því. Það er innan við 1% af ríkisframlagi ef við viljum halda því opnu og samtalið stendur alltaf til boða um að halda því opnu þennan mánuð og hefur svo verið síðastliðin tíu ár. Það hefur bara með skipulag að gera. Við eigum ekki að taka þetta viðkvæma samhengi sem er þarna á milli, með þennan erfiða sjúkdóm, og segja að með einhverjum óræðum hætti valdi þessi lokun því að miður fer á einhverju sviði. Það er bara ekki þannig. Þetta er langt innan við 1% af heildarríkisframlaginu og við getum svo auðveldlega haldið því opnu ef vilji er til. Ég hef margoft komið því á framfæri við SÁÁ, líka áður en ég steig inn í heilbrigðisráðuneytið, að við erum alltaf tilbúin að skoða það og halda því gangandi, ef við ætlum að fara að ræða þetta á þessum forsendum. (Forseti hringir.) Hins vegar erum við auðvitað að kaupa hér fjölbreytt meðferðarúrræði. Í þessu seinna andsvari ætlaði ég, hæstv. forseti, að fara yfir fjárhæðir sem eru fyrir utan þetta og fara í ýmiss konar starf (Forseti hringir.) á meðferðarsviði til að vinna gegn þessum hræðilega sjúkdómi. Vonandi gefst okkur færi á að ræða þetta meira og betur og höfum meiri tíma til þess síðar.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að í óundirbúnum fyrirspurnum hafa fyrirspyrjendur og ráðherra tvær mínútur í fyrri ræðu sinni en aðeins eina mínútu í síðari umferð.)