154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

samstarf ríkis og einkaaðila í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

[15:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hygg að við hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um það að við Íslendingar erum meðal þeirra þjóða sem greiða hvað mest í skatt og vart á það bætandi. Viðreisn leggur mikla áherslu á að núna er ekki tíminn til að hækka skatta sem við vitum að á endanum munu bitna af miklum krafti á millitekjuhópunum m.a. sem róa nú þegar mjög þungan róður. Ríkisstjórnin hefur líka sagt að hún ætli að hækka álögur á lögaðila, fyrirtæki. Það er tímabundið, vissulega, og hæstv. fjármálaráðherra má vita það að ég verð tilbúin með skeiðklukkuna og mun hnippa í hann til að fylgjast með því að þetta verði bara tímabundið, því fátt er jafn varanlegt í þessum heimi og boðaðar tímabundnar skattahækkanir. Hvað aðhaldið varðar höfum við í Viðreisn lagt áherslu á það að hagræða og einfalda kerfið sem mun hafa í för með sér mikinn þjóðhagslegan sparnað.

En við höfum líka lagt gríðarlega mikla áherslu á að verja grunnþjónustuna eins og fleiri flokkar, þvert yfir litrófið, og huga sérstaklega að heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Við þurfum að taka til þar hressilega og sýna fyrirhyggjusemi. Við vitum það að núna eru a.m.k. 500 einstaklingar á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum og aldurssamsetning þjóðarinnar mun þróast eins og við vitum með gríðarlegu álagi á alla heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Á Landspítalanum eru rekin núna í rauninni dýrustu gistirými landsins og þar fyrir er gríðarlegt álag á heilbrigðisstarfsfólk.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að það má segja að tímasetningin núna henti í rauninni líka út frá markaðnum, hvort hann sé sammála okkur í Viðreisn um að fara af fullum þunga í samstarfsverkefni milli ríkisins, hins opinbera, og einkaaðila í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og fara í ríkara mæli en boðað er í það að fjölga hjúkrunarrýmum. Það mun minnka biðlista fyrir hjúkrunarrými, mun minnka biðlista líka eftir erfiðum aðgerðum á Landspítala og það mun líka tryggja að þegar við, hæstv. forseti, flytjum í nýja spítalann mun hann sinna þeim verkefnum sem honum er ætlað að sinna en ekki öðrum.