154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

samstarf ríkis og einkaaðila í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki skort stuðning frá mér til þess að vera með samninga við einkarekna heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum og reyndar bara mjög nýverið gekk heilbrigðisráðherra frá stórum samningum, bæði við sérgreinalækna og eins vegna tannlæknaþjónustu, sem eru einmitt sjálfstætt starfandi í þessum geira. En eins og hv. þingmaður kom inn á þá hlýtur það að vera algjört forgangsmál hjá okkur að koma í veg fyrir sóun í heilbrigðiskerfinu með því að vera með fólk sem ekki á lengur erindi inn á sjúkrastofnunum þar fast inni. Það er auðvitað ekkert annað en hrein sóun. Það sem við höfum séð varðandi uppbyggingu hjúkrunarrýma eru dæmi sem við verðum að draga lærdóm af, t.d. má skoða bara fermetraverðið í byggingu hjúkrunarrýma, en þar sem sjálfseignarstofnun byggir á Sléttuvegi er fermetraverðið kannski rétt um helmingurinn af því sem við erum að byggja sjálf í opinberri framkvæmd í Árborg. Þetta eru bara dæmi sem segja sína sögu. Ég vonast til þess að samstarf okkar heilbrigðisráðherra muni skila góðum ávexti og við getum gert kerfisbreytingu sem verður til heilla.