154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

áætlunarflug til Húsavíkur.

[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég nýtti mér einmitt flugið til Húsavíkur í sumar þegar ég var á leið í Kelduhverfið og kom það sér vel, stytti ferðalagið mjög verulega og lengdi samverutíma með fjölskyldunni sem beið eftir mér fyrir norðan. Nú hefur Flugfélagið Ernir haldið úti áætlunarflugi án stuðnings í a.m.k. áratug og við höfum verið að vinna með þá meginreglu að þar sem flugleiðir geta staðið undir sér sé ekki réttlætanlegt að vera með mikinn beinan ríkisstuðning. En það eru blikur á lofti nú þegar flugfélagið hefur boðað að flugleiðin beri sig ekki lengur og eflaust hefur flugfélagið orðið fyrir miklum búsifjum þegar heimsfaraldur reið hér yfir, og reyndar er það ekki bara til Húsavíkur heldur líka til Vestmannaeyja þar sem flugsamgöngur eru að raskast. Það er mín skoðun varðandi þessa mikilvægu samgönguæð sem flugið er að það sé að sjálfsögðu eðlilegt að tryggja áframhaldandi loftbrú til þeirra svæða þar sem markaðsbrestur er, ef maður getur kallað það svo, þar sem markaðurinn rís ekki undir því að tryggja öruggar flugsamgöngur allt árið. Það erum við enda að gera í mörgum tilvikum og það hlýtur að koma til skoðunar þarna. Nú er þetta ekki beint á mínu málefnasviði en ef ég veit rétt þá þarf það að hafa sýnt sig í einhvern ákveðinn tíma, áður en kemur til útboðs á vegum ríkisins til að styðja við flugleiðina, að flug hafi legið niðri. Því vænti ég þess að innviðaráðuneytið sé með málið til skoðunar, hvort það lifni aftur yfir þessari flugleið eða hvort undirbúa þurfi útboð vegna flugsins.