154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

Staða umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir synjun.

[15:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í umræðum um illa ígrundaðar breytingar sem gerðar voru á lögum um útlendinga þann 15. mars síðastliðinn, sagði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, með leyfi forseta:

„En varðandi þau orð hv. þingmanna að hér muni fólk enda á götunni ef þjónusta er tekin af eftir brottvísun, þá er það auðvitað ekki rétt vegna þess að 15. gr. félagsþjónustulaga sveitarfélaga grípur fólk.“

Það var ekki fyrr en í byrjun ágúst, þegar lögreglan fór bókstaflega að bera fólk út á götu, sem það rann upp fyrir hæstv. ráðherra að sveitarfélögin myndu ekki grípa fólkið sem var úthýst í krafti nýju laganna. Það kom engum á óvart nema hæstv. ráðherra. Á meðan ráðherrar í ríkisstjórninni bentu hingað og þangað og töluðu í kross var fólk sem þegar var í gríðarlega viðkvæmri stöðu svipt grunnaðstoð án þess að eiga neina möguleika á því að bjarga sér sjálft því það má það ekki. Enginn aðili í kerfinu svaraði kallinu og hjálpaði þessu fólki. Það voru sjálfboðaliðar á vegum félagasamtaka og hjálparsamtaka sem gripu fólkið og hafa eftir fremsta megni reynt að halda því fjarri hraungjótum og yfir höfuð lifandi þar til ráðherra hugnast að finna lausn á þeirri stöðu sem hann tók þátt í að skapa. Samkvæmt mínum heimildum hefur hæstv. ráðherra hvorki haft samband við þessi hjálparsamtök að eigin frumkvæði líkt og hann sagðist leynt eða ljóst myndu gera né hefur hann svarað símtölum og tölvupóstum frá þeim. Nú eru fimm vikur liðnar og ekkert bólar á lausn. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvað hann hyggst gera í þessari stöðu annað en að setja málið í nefnd. Hvers vegna hefur hæstv. ráðherra ekki sett sig í samband við þau sjálfboðaliðasamtök sem gripu þennan bolta fyrir hans hönd?