154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

staða umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir synjun.

[15:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Mér heyrist á hæstv. ráðherra að hann telji ekki að þetta sé mikið vandamál: Það er verið að skoða þetta, það er verið að vinna þetta í ráðuneytinu. Mig langar til þess að minna hæstv. ráðherra á að það er fólk sem er á götunni í þessum töluðu orðum, einhverjir tugir einstaklinga. Því langar mig til að spyrja: Hyggst hæstv. ráðherra láta hjálparsamtök úti í bæ sjá um að halda þessu fólki lifandi á meðan unnið er að byggingu fangelsisins eða hvaða lausna sem hann hyggst koma með á þessu? Hæstv. ráðherra segir hér: Við ætlum ekki að hafa fólk hér á götunni. Það er fólk hér á götunni. Ætlar hæstv. ráðherra einfaldlega að firra sig ábyrgð og bíða eftir því að sveitarfélögin taki við þessu? Ætlar hann að láta þetta hvíla á hjálparsamtökum úti í bæ sem hafa ítrekað haft samband við hæstv. ráðherra með símtölum og tölvupóstum sem hæstv. ráðherra svarar ekki? Það nægir ekki að mæta á einhvern opinn fund og segja sömu tugguna og kom fram í einhverjum ræðum hérna í mars. Hyggst hæstv. ráðherra ekki eiga neitt samtal við hjálparsamtök umfram þennan fund sem átti sér stað?