154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

atvinnuleysi meðal fólks af erlendum uppruna.

[15:48]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Atvinnuleysi hér á landi er í sögulegu lágmarki, eða um 2,9% á landinu í heild. Sem fyrr er atvinnuleysi því miður mest á landinu á Suðurnesjum. Atvinnuleysi tekur vissulega breytingum yfir tíma í takti við þróunina í hagkerfinu en mestar áhyggjur hef ég þó af þeim sem festast í langtímaatvinnuleysi.

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því átaki sérstaklega sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra kynnti í maí til að sporna gegn brotthvarfi ungs fólks af vinnumarkaði. Að átakinu koma Samtök atvinnulífsins, Vinnumálastofnun og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður. Ráðgert er að verja 450 millj. kr. til verkefnisins yfir þriggja ára tímabil. Það sem stendur upp úr í mínum huga í því átaki er sú aukna áhersla á einstaklingsmiðaðan stuðning við starfsleit sem fram kemur í átakinu. Ég hef nefnilega áhyggjur af því að það séu fleiri viðkvæmir hópar sem gætu þurft á sambærilegum sérstökum úrræðum að halda og vil ég þá sérstaklega nefna fólk af erlendum uppruna. Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun er fjöldi erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisbótum hlutfallslega mun meiri en íslenskra, miðað við fjölda erlendra ríkisborgara sem hér búa; 48,3% af þeim sem eru á atvinnuleysisbótum eru erlendir ríkisborgarar. Það er áhyggjuefni.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hvort verið sé að huga sérstaklega að þessum viðkvæma hópi hjá Vinnumálastofnun og hvort ekki sé ástæða til þess að hrinda í framkvæmd sérstöku átaki til að auðvelda þessum hópi að komast inn á vinnumarkað, með aukinni einstaklingsmiðaðri nálgun.