154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir næsta ár. Efnisatriði þess eru af margvíslegum toga og hafa þau bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta en sú yfirferð er ekki endilega í þeirri röð sem er að finna í frumvarpinu.

Ég vík hér fyrst að verðlagsuppfærslu krónutöluskatta og gjalda. Áætluð tólf mánaða breyting á vísitölu neysluverðs yfir árið 2024 er 7,4% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að krónutölugjöld uppfærist einungis um 3,5% í samræmi við forsendur tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins. Líkt og þingmenn þekkja er virkni krónutölugjalda með öðrum hætti en prósentuskatta. Þannig þurfa fjárhæðirnar að uppfærast um áramót í samræmi við verðlagsforsendur til þess að halda í við það sem kalla mætti hefðbundnari skatta. Í ár munu krónutölugjöld því rýrna að verðgildi. Þessu er nú öfugt farið hjá sveitarfélögunum sem almennt hækka og stundum oftar en einu sinni á ári til samræmis við verðlag. Þessi uppfærsla skilar ríkissjóði 3,4 milljörðum kr. að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt, en skattarnir hefðu verið um 3 milljörðum kr. hærri ef þeir hefðu fylgt verðlagsforsendum, líkt og átti við um síðustu áramót, þótt í ljós hafi komið að sú hækkun hafi ekki náð á endanum að halda í við verðlag.

Breytingin nær til áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjalds ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldi. Þessi uppfærsla hefur minni háttar áhrif á vísitölu neysluverðs eða til 0,1% hækkunar. Breytingar á bifreiðagjaldi, kílómetragjaldi, útvarps-gjaldi og gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra hafa þó ekki áhrif á vísitölu neysluverðs.

Auk þessarar uppfærslu er lögð til hækkun á lágmarki bifreiðagjalds sem lagt er á fólksbíla. Gjaldið fer úr 15.080 kr. í 20.000 kr., en það er greitt tvisvar á ári. Aðgerðinni er ætlað að koma til móts við mikla lækkun tekna ríkissjóðs af ökutækjum undanfarin ár samhliða fjölgun vistvænna og sparneytinna fólksbifreiða, en mikilvægt er að endurheimta tekjur svo áfram megi standa undir öflugri uppbyggingu og viðhaldi til vegasamgangna.

Líkt og og ákveðið var um síðustu áramót, að gera ákveðnar kerfisbreytingar, er haldið áfram með breytingar á bifreiðagjaldinu. Það felur í sér að það eitt að eiga bifreið mun kosta eitthvað meira en frá sjónarhorni ríkissjóðs hefur orðið verulega mikill tekjusamdráttur, annars vegar vegna þess að bifreiðir eru orðnar svo miklu sparneytnari heldur en áður var og að hluta hafa kerfin okkar hvatt til þess að sparneytnari bifreiðar séu keyptar vegna þess að vörugjöld á bensín- og dísilbifreiðar hafa tekið mið af losun koltvísýrings. Þetta hefur haft áhrif á samsetningu bílaflotans. Síðan hafa auðvitað bílaframleiðendur náð gríðarlega miklum árangri í þeim tilgangi að draga úr losun. Af þessum sökum fer fólk sjaldnar á bensíndæluna eða á dísildæluna og það þýðir að minna er að skila sér til ríkissjóðs í eldsneytisskatta og í heildina eru tekjurnar að skreppa saman. Og hér hef ég svo sem ekki minnst á það að við höfum verið með verulega miklar ívilnanir vegna rafmagnsbifreiða og tengitvinnbifreiða. Við gerðum ákveðnar kerfisbreytingar um síðustu áramót, m.a. hækkuðum bifreiðagjaldið, og erum aftur á þeim slóðum með þessari breytingu sem er áætlað að skili ríkissjóði um 1,3 milljörðum í viðbótartekjur.

Næst að greiðslu kostnaðar vegna reksturs Fjármálaeftirlits og skilavalds. Hér er lagt til að gjöld vegna Fjármálaeftirlits og skilavalds Seðlabankans taki breytingum, að mestu leyti til hækkunar, með hliðsjón af breytingum á áætluðum kostnaði við starfsemina.

Þá er lögð til lækkun á gjaldhlutfalli af álagningarstofni samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar og er lagt á gjaldskylda aðila. Í lögunum er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðs-manns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Útlán gjaldskyldra aðila 31. desember 2022 voru um 4.684 milljarðar kr. og áætlaður kostnaður vegna reksturs umboðsmanns skuldara var um 301,5 milljónir. Álagningarstofn gjaldsins er öll útlán gjaldskyldra aðila.

Næst að rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna. Það er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um málefni aldraðra taki gildi. Í því felst að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2024. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tenging við tekjur maka var afnumin. Jafnframt er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða í lögunum verði framlengt.

Í frumvarpinu er enn fremur lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á árinu 2024. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2024 og á þessu ári. Frítekjumarkið er nú 2,4 milljónir á ári sem jafngildir 200.000 kr. á mánuði. Verði ákvæðið ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 2,3 milljarða kr. á árinu 2024 en bæði þessi ákvæði eru á forræði félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ég vil geta þess að fyrirhugaðar eru breytingar á örorkulífeyriskerfinu og í því sambandi verður jöfnunarframlagið, víxlverkunin og markviss endurhæfing fyrr í ferlinu en nú er.

Þá að sóknargjöldum. Gert er ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda lækki úr 1.192 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 1.107 kr. fyrir árið 2024. Hér verð ég að segja að við höfum allt of lengi búið við eins konar bráðabirgðaástand varðandi ákvörðun sóknargjalda. Við höfum eiginlega alveg frá árinu 2008 búið við þetta bráðabirgðaástand þegar hinu almenna ákvæði laganna um sóknargjöld var kippt úr sambandi og framlagið hefur verið ákveðið frá þeim tíma með fjárveitingu á fjárlögum. Almenna ákvæði laganna gerir ráð fyrir því að sóknargjöldin breytist frá ári til árs í samræmi við breytingar á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldaárinu. Það er auðvitað eitt álitamálið sem við kannski höfum í allt of langan tíma ekki tekið afstöðu til, hvort það sé eðlilegt viðmið í lögunum, a.m.k. hefur þingið ákveðið núna í — já, við erum komin með 15 ára tímabil, að nýta ekki þetta sem aðalviðmiðið heldur gera bráðabirgðaráðstafanir. Ef við skoðum meðhöndlun þingsins á tillögum í fjárlögum ársins 2023, þ.e. hvernig málið var rætt hér í þinginu fyrir ári síðan, þá tók efnahags- og viðskiptanefnd tekjubandorminn til sérstakrar umræðu og ræddi um það í sínu nefndaráliti að breytingar þingsins á árunum tveimur á undan hafi verið hugsaðar sem varanlegar breytingar á sóknargjaldafjárhæðinni. Þar var sömuleiðis lýst þeirri skoðun að við hefðum átt að láta sóknargjöldin breytast eins og önnur krónutölugjöld gerðu í frumvarpinu. Þar var sem sagt komið fram með enn eina hugmyndina að því með hvaða hætti við ættum að láta sóknargjöldin breytast frá ári til árs þar sem ekki var verið að vísa til hinnar almennu reglu laganna um breytingar á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á landinu.

Allt þetta fær mig til að segja hér að það er orðið tímabært að við förum ofan í lögin og tökum almenna umræðu í stað þess að vera að byggja sóknargjöldin í þetta langan tíma á bráðabirgðaákvæðum. Það er ákveðin mótsögn sömuleiðis í afgreiðslu þingsins frá því í fyrra og hún liggur í því að þessi skilaboð koma frá efnahags- og viðskiptanefnd sem afgreiðir tekjubandormur frá sér og segir: Þingið er ítrekað búið að segja að það vilji að sóknargjöldin hækki milli ára í takt við breytingar á krónutölugjöldum og sköttum. En í fjárlaganefnd er síðan málið afgreitt með þeim hætti að breytingin tekur gildi einungis til eins árs og alveg skýrt í afgreiðslu fjárlaganefndar að breyting sóknargjaldanna gilti bara fyrir árið 2023. Þess vegna er hér komin fram tillaga í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem gerir ráð fyrir lækkun á sóknargjaldinu. Það leiðir þá af því að hin tímabundna hækkun sem fjárlaganefnd afgreiddi fellur niður.

Þá er það gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda og úrvinnslugjald. Það er gert ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verði hækkað úr 10.781 kr. í 12.312 kr. til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Jafnframt eru lagðar til breytingar á fjárhæð úrvinnslugjalds á hjólbarða en bæði gjöldin eru á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Lögð er til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lög um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2024. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013–2023. Eftir sem áður er gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum, eða 0,10%. Þá er gert ráð fyrir því að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra annars vegar og VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2024 leggi ríkissjóður starfsendurhæfingarsjóði til framlag á fjárlögum.

- Lagt er til að bráðabirgðaákvæði sem kveður á um útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengt eitt ár í viðbót sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verði þær sömu á næsta ári og voru á þessu ári. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 2,8 milljörðum kr. á árinu 2024.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila hækki tímabundið til eins árs um 1 prósentustig og fari úr 20% í 21% í tilviki hlutafélaga og einkahlutafélaga rekstrarárið 2024 og við álagningu á árinu 2025. Það felur í sér að það verður þá á árinu 2025 sem tekjuáhrif vegna þessarar skattbreytingar gætir. Jafnframt er lögð til samsvarandi hækkun á samanlögðum skatti á hagnað félags og arð eiganda, þ.e. tekjuskatti sameignar- og samlagsfélaga, úr 37,6% í 38,4%. Þá er einnig lögð til samsvarandi hækkun á tekjuskatti lögaðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi. Þessar breytingar eru hluti af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr þenslu í hagkerfinu en þar sem álagning á tekjuskatti lögaðila fer fram með árstöf er gert ráð fyrir því að tímabundna hækkun skatthlutfallsins skili ríkissjóði nálægt 6,4 milljörðum kr. árið 2025.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð til framlenging á gildistíma sólarlagsákvæðis laga um fjarskiptasjóð út árið 2024. Að óbreyttu myndu lögin, sem eru á forræði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, falla úr gildi í árslok árið 2023.

Lagt er til að framlengd verði heimild samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum til að nota fé ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða um eitt ár eða til 31. desember 2024 en málaflokkurinn er á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við næsta áfanga hættumats vegna eldgosa verði allt að 65 millj. kr. á ári miðað við verðlag við framlagningu frumvarpsins. Hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við gerð hættumats vegna vatnsflóða verður allt að 50 milljónir kr. á ári miðað við verðlag við framlagningu frumvarpsins og við gerð hættumats vegna sjávarflóða allt að 25 millj. kr. á ári miðað við verðlag við framlagningu frumvarpsins. Ef vinna við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða frestast er hætta á að í náinni framtíð verði byggt á svæðum þar sem áhætta er talin of mikil fyrir slíka landnotkun, með ófyrirséðum afleiðingum.

Samkvæmt lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð skal rekstrarleyfishafi fiskeldisstöðvar í sjó greiða gjald í ríkissjóð. Fiskistofa ákvarðar og birtir síðan fjárhæð gjaldsins með auglýsingu eigi síðar en 1. desember hvert ár til að það öðlist gildi fyrir komandi almanaksár. Lagt er til að hlutfall af reiknistofni gjaldtöku vegna slátraðs lax í sjókvíum, þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra verði hækkað um 1,5 prósentustig og nemi því 5%. Jafnframt er, með tilliti til gildistöku frumvarpsins, lagt til að vegna ársins 2024 skuli Fiskistofa birta fjárhæð gjaldsins með auglýsingu fyrir 31. desember á þessu ári í stað 1. desember. Áætlað er að breytingar á verðmætagjaldi sjókvíaeldis leiði til um 630 millj. kr. hækkunar á tekjum ríkissjóðs, en málið er á forræði matvælaráðherra.

Líkt og ljóst má vera eru tillögur frumvarpsins af margvíslegum toga og fjárhagsáhrif þeirra sömuleiðis. Ég hef rakið áhrifin í stuttu máli undir umfjöllum um tillögurnar, en þau eru nánar rakin í 6. kafla greinargerðar frumvarpsins.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.