154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi bandormur sýnir að hæstv. ríkisstjórn virðist ekki ætla að afla tekna til að auka jöfnuð í samfélaginu eða til að efla mennta- og velferðarkerfin. Við horfum upp á það nú um stundir að börnum nægir ekki barnæskan til að komast af biðlistum eftir velferðarþjónustu og hundruð af þeim sem eldri eru eru á biðlista eftir hjúkrunarheimilum og annarri öldrunarþjónustu. Ungar fjölskyldur eiga í miklum vanda vegna húsnæðiskostnaðar og hækkunar á nauðsynjavörum en hæstv. ríkisstjórn virðist hvorki ætla að efla barnabóta- eða vaxtabótakerfið til að létta undir með þeim. Þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur njóta hins vegar verulegra skattfríðinda sem gerir það að verkum að hjá tekjuhæsta eina prósentinu, þar sem fjármagnstekjur eru meiri hluti heildartekna, verður skattbyrði lægri en hjá þeim sem eru með rétt rúmar meðaltekjur. Það er óréttlátt, herra forseti. Hátekju- og stóreignafólk nýtur sérstakra skattfríðinda í formi fjármagnstekjuskatts sem er með mun minni álagningu en atvinnutekjur og lífeyrir. Þau sem fá eða greiða sér laun með fjármagnstekjum fá meira fyrir launin sín en venjulegt launafólk því skattar á fjármagnstekjur eru lægri.

Er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ekki sammála mér um það að á milli umræðna þurfi bæði að gera tillögur um breytingar á tekjuskattslögum til að bæta barna- og vaxtabótakerfin og setja fram breytingar sem lúta að því að allar tekjur séu skattlagðar með sama hætti? Telur hæstv. ráðherra ekki að tillögur í þessa veru séu nauðsynlegar til að mæta kalli verkalýðshreyfingarinnar og greiða fyrir kjarasamningum?