154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég vona að þetta frumvarp líti dagsins ljós sem fyrst þar sem svo sannarlega er þörf á að taka á hlutum. Ég myndi hins vegar vilja leiðrétta hæstv. ráðherra, því að fjármagnstekjuskattur hér á landi er mjög lágur miðað við þau lönd sem við berum okkur oftast saman við, Norðurlöndin. Ég mun einmitt fara yfir það í ræðu minni á eftir.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í eitt sem hann fjallaði um hér áðan og það er að meira eigi að greiða fyrir notkun á bílum, sem betur fer. Fleiri og fleiri eru að fara yfir í vistvæna bíla og ekki koma lengur inn álögur á bensín. Verið er að hækka það sem er greitt fyrir að eiga bílinn en ég sé ekki í þessu frumvarpi neitt um það hvernig eigi að rukka kílómetragjald á bíla, þ.e. fyrir notkunina. (Forseti hringir.) Ég vildi gjarnan heyra meira um það frá hæstv. ráðherra.