154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:59]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór hér í mikinn samanburð á fjármagnstekjuskatti; annars vegar skattprósentu hér á landi og hins vegar skattprósentu sem er við lýði annars staðar á Norðurlöndum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ef maður horfir eingöngu til skattprósentunnar sem slíkrar þá er skattprósentan hér á Íslandi lægri, en það sem hv. þingmaður nefndi ekki og horfir fram hjá er að þessi samanburður einn og sér er algjörlega ómarktækur ef ekki er á sama tíma litið til þess hversu breiður skattstofninn er til að mynda annars staðar á Norðurlöndum, hann er lægri. Það helgast af því að þar eru frádráttarreglur mun víðtækari en hér á landi og flækjustigið reyndar almennt mun meira.

Ég skal nefna dæmi. Í Noregi er ávöxtun aðeins skattlögð sem er umfram ávöxtun ríkisbréfa. Það má horfa til Danmerkur, en þar er hægt að draga frá neikvæðan fjármagnstekjuskatt. Það má nefna til að mynda að í Finnlandi, þegar verið að skattleggja arðgreiðslur, eru einungis 85% arðgreiðslnanna skattlögð. Þetta sýnir að samanburður hv. þingmanns á fjármagnstekjuskatti á Íslandi og á Norðurlöndum er alveg ómarktækur. Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Hefur hann í þessum útreikningum sínum á því hversu vondur fjármagnstekjuskatturinn á Íslandi er, eða allt of lágur að hans mati, tekið tillit til þessara þátta sem ég var að nefna hér varðandi Norðurlöndin?