154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[17:33]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Boðuð er 1% skattahækkun á fyrirtæki í fjárlögum næsta árs. Þessi skattur mun falla jafnt á öll fyrirtæki, án tillits til afkomu þeirra eða hvort hún hafi verið í meðallagi, góð eða slæm. Nú er það svo að fyrirtæki eru mjög misvel í sveit sett. Það er bláköld staðreynd að sum fyrirtæki hafa hagnast stórkostlega á verðbólgunni. Yfirleitt eru það aðilar sem geta með beinum eða óbeinum hætti haft áhrif á verðbólguna, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, með aðgerðum sínum því að hjá þessum aðilum liggur annaðhvort nær allt fjármagn landsins eða vald til að stjórna vöruverði til neytenda, nema hvort tveggja sé. Sem dæmi má nefna að á síðasta ári skiluðu N1, Elko og Krónan sinni bestu afkomu frá upphafi, auk þess sem tekjur Haga, sem á Bónus og Hagkaup, jukust um 19% og afkomuspáin fyrir þetta ár gerir ráð fyrir 11 milljörðum í hagnað samkvæmt fréttum. Þetta eru aðilar sem t.d. stjórna því hversu mikið matarkarfan hækkar og auka þar með verðbólguna svakalega með arðsemiskröfum sínum og græðgi.

Og þá erum við ekki einu sinni farin að nefna hagnað bankanna. Hagnaður bankanna óx úr 30 milljörðum árið 2020 í 81 milljarð á árinu 2021; um 50 milljarða á einu ári. Svo að maður beiti meðaltölum, eins og hæstv. fjármálaráðherra er oft mjög hrifinn af að gera, þá gera þessir auknu 50 milljarðar að meðaltali um 132.000 á hvert einasta mannsbarn á Íslandi eða um 525.000 á hvert einasta fjögurra manna heimili landsins. Ef miðað er við 80 milljarða hagnað þá gerir það um 210.000 á mann eða 840.000 á hvert fjögurra manna heimili. Athugið að þessar tölur miðast við hagnað bankanna, það sem þeir fá greitt frá okkur, fólkinu í landinu, umfram það sem kalla mætti eðlilegar greiðslur af lánum og þess háttar.

Árið 2022 högnuðust þrír stóru bankarnir um 66,9 milljarða þar sem bara hagnaður Landsbankans meira en tvöfaldaðist á milli ára og það er sko sannarlega útlit fyrir bætta afkomu bankanna á þessu ári vegna stóraukinna vaxtatekna. Þannig högnuðust bankarnir þrír samanlagt um 40 milljarða kr. á fyrstu sex mánuðum þessa árs þannig að þeir stefna augljóslega í 80 milljarða eða meira á þessu ári í hagnað. Bankarnir og fyrrnefnd stórfyrirtæki, þetta eru aðilarnir sem græða á verðbólgunni og hagnast á því að hún sé sem hæst á meðan heimili og minni fyrirtæki þurfa að borga brúsann, svo mikið að þeim er sumum við það að blæða út. Samt á, samkvæmt bandorminum, einnig að skattleggja minni fyrirtæki jafn mikið og hin, fyrirtæki sem mörg hver standa ekkert sérstaklega vel. Það er ekki mikil sanngirni í því svo að ekki sé tekið sterkar til orða.

Svo er ekki hjá því komist að nefna bankaskattinn sem nær ekki einu sinni 0,2%. Hann er nákvæmlega 0,145%. Við í Flokki fólksins höfum ítrekað mælt fyrir bankaskatti, að hann verði hækkaður í það sem hann var fyrir lækkun. Þar verður að hafa tvennt í huga. Lækkun bankaskatts hefur ekki skilað sér til neytenda og þó að hann yrði hækkaður myndi hann samt ekki einu sinni ná 0,4%, hann yrði þá 0,376%. Sjálf hef ég lagt fram breytingartillögur um bankaskattinn a.m.k. þrisvar sinnum og hv. þm. Flokks fólksins, Eyjólfur Ármannsson, tvisvar sinnum en þessi hógværa tillaga hefur varla hlotið neinn hljómgrunn hér á þinginu nema þá hjá Pírötum, þangað til reyndar síðastliðið vor þegar Samfylkingin stökk allt í einu á þennan vagn með okkur og greiddi í fyrsta skipti atkvæði með tillögu Flokks fólksins. Það er farið með bankana hérna eins og heilagar kýr. Það má aldrei snerta við þeim né öðrum stórfyrirtækjum. Vonandi mun stuðningur við hækkun bankaskattsins ná fram að ganga þegar við leggjum þessa tillögu fram að nýju.

Málið er að það standa ekki öll fyrirtæki í landinu jafn vel. Það eru hér fyrirtæki sem stórgræða á meðan önnur eru jafnvel í basli. Það er ekki sanngjarnt að sams konar og sami prósentuskatturinn fari á þau öll. Það hlýtur að vera réttara að leggja einhvers konar hvalrekaskatt á stórfyrirtæki sem, eins og gríðarlegar hagnaðartölur þeirra sýna fram á, eru ekki á nokkurn hátt að taka þátt í baráttunni við verðbólguna, frekar en að leggja skattahækkanir jafnt á öll fyrirtæki, sama hvernig þau standa.

Ég vona að þessi fyrirhugaði skattur taki breytingum í meðförum þingsins og hv. efnahags- og viðskiptanefndar þannig að honum verði breytt í t.d. einhvers konar þrepaskiptan skatt þar sem fyrirtæki sem greiða hluthöfum háan arð af milljarðahagnaði greiði hærri prósentutölu en minni fyrirtæki sem veikar standa.