154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[18:05]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Við 1. umræðu frumvarps til laga um breytingar á ýmsum lögum fyrir fjárlög fyrir árið 2004 er málið auðvitað því marki brennt að hér eru ýmsar tillögur sem hafa bæði áhrif á tekjuhlið og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Hér hefur hæstv. fjármálaráðherra farið vel yfir þær forsendur allar og þær tillögur sem er að finna í þessu frumvarpi. Munar þar mest um verðlagsuppfærslu krónutölugjalda og hækkun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds á næsta ári. En svo kemur á árinu 2024 til hækkun á tekjuskatti lögaðila og hefur áhrif á tekjuhlið fyrir ríkissjóð. Eðli máls samkvæmt helst þetta frumvarp auðvitað í hendur við vinnu fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið og þannig mun hæstv. efnahags- og viðskiptanefnd vinna málið núna í framhaldi af þessari umræðu og kafa frekar ofan í einstaka liði og leita eftir skýringum ef svo ber undir.

Það sem ég vil gera hér að sérstöku umræðuefni er eitt atriði þessa frumvarps og það er hækkun á verðmæti af gjaldi fiskeldis. Þessi tillaga um hækkun þess efnis var lögð fram í fyrra og það er óhætt að segja að viðbrögðin hafi heilt yfir verið á þá leið að hækkunin væri í senn óhófleg og ótímabær. Það er um tímasetninguna að segja að hæstv. matvælaráðherra hefur boðað að í haust verði kynnt drög að skýrslu um stefnumótun ásamt aðgerðaáætlun um fiskeldi eða lagareldi allt saman. Það er þá sjókvíaeldi, landeldi, þörungarækt og úthafseldi. En þessi tillaga er þá hér til meðferðar í þinginu áður en skýrsla um stefnumótun í fiskeldi liggur fyrir, við skulum hafa það í huga. Það verður eins að halda því til haga í þessari umræðu að þegar gjald var lagt á fiskeldi árið 2019, sem kom til framkvæmda 2020, var það innbyggt inn í þá gjaldtöku sem er núna þessi ár að gjaldtakan leggst á í áföngum. Hún verður þá að fullu innleidd, að óbreyttum lögum, árið 2026. Það sem ég vildi gera hér í þessari umræðu er að draga fram meginlínurnar í þessari gjaldtöku og hvernig gjaldið er að hækka miðað við óbreytt lög, bæði út af þessari innleiðingu, þrepaskiptingu sem er inni í lögunum, en eins af því að framleiðslan er að aukast.

Ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. matvælaráðherra við þinglok í vor og spurði út í krónutölu þessa gjalds og hvernig gjaldið hafi verið lagt á undanfarin ár og hvers megi vænta í fjármálaáætlun næstu ára að óbreyttum lögum. Það er athyglisvert að rýna í það að þegar gjaldið var fyrst lagt á árið 2020 þá nam það um 60 millj. kr. Árið 2021 var það komið í 164 millj. kr., árið 2022 í 440 millj. kr. og, frú forseti, á þessu ári er útlit fyrir að gjaldið nemi um milljarði. Á næsta ári, að óbreyttum lögum, verður gjaldið komið í 1 milljarð og 280 milljónir og árið 2025 verður gjaldið orðið um 1,6 milljarður. Ef við horfum á þær forsendur sem er að finna í frumvarpinu hér um að hækkun á 3,5% í 5% á aflaverðmæti, sem er 4,8 evrur á hvert kíló og umfram það, þá leggjast ofan á það 630 milljónir á greinina til viðbótar við þá miklu hækkun sem er að óbreyttu að verða á næsta ári. Þetta er um 40% hækkun á skatti á atvinnugrein sem er ung, sem er í örum vexti og þar sem fjárfestingarþörfin er mikil, sérstaklega í búnaði og öðru slíku og til að mynda við að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til greinarinnar um eftirlit, vöktun og fleira.

Ég vildi nefna það í þessari umræðu, og það er þá verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að rýna aðeins betur þær forsendur sem liggja hér til grundvallar. Það þarf að rýna sérstaklega hvert markmiðið er með þessum breytingum, af því að við höfum ekki enn þá séð skýrslu hæstv. matvælaráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Við þurfum þá að leita svara við þeim spurningum hvert markmiðið er, hvert samspil þessa gjalds og markmiðs stjórnvalda er þá um sjálfbæra nýtingu auðlinda. Eins getur skipt töluvert miklu máli fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða áhrif þessarar hækkunar á greinina, á samfélagið, nærsamfélagið þar sem fiskeldi er stundað, til skemmri og lengri tíma, sem og efnahagslífið í heild sinni.

Ég tel að aðalatriðið — ef við erum að hugsa um grundvallarhag ríkissjóðs, hag ríkissjóðs af þróun útflutnings í fiskeldi og sköpun nýrra starfa, sem hefur verið gríðarlega jákvætt mál, hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á þær byggðir sem hér eiga í hlut og gríðarleg jákvæð áhrif á efnahag Íslands, þá tel ég að það blasi við að það sem skiptir mestu máli sé að greininni verði gert kleift að vaxa og auka við framleiðsluna. Ef það er pólitískur vilji hér á Alþingi að ná í meiri pening út úr fiskeldisgreininni þá er aðalatriðið að það sé gert með því að auka verðmætasköpunina, gera fyrirtækjunum kleift að bæta við framleiðsluna og vaxa. Það er það sem mun skila meiri raunverulegum fjármunum í ríkissjóð til lengri tíma. Það er það sem skiptir máli af því að ef við skoðum þetta heilt yfir — og þá get ég líka vísað til ræðna sem hafa verið fluttar af hv. þingmönnum úr stjórnarandstöðunni sem hafa farið mikinn um nauðsyn þess að hækka alla skatta; fjármagnstekjuskatt, skatta á hina ríku og hina ýmsu skatta sem á að hækka. Þetta er stefna vinstri flokka, þetta er stefna Samfylkingarinnar og það er ágætt að það liggi þá fyrir hver stefna þeirra er í þessum málum. Hættan er sú að það sem gerist og hefur alltaf gerst er að með óhóflegri skattlagningu er þróttur dreginn úr einstaklingum og fyrirtækjum til að sækja fram, til að taka áhættu, til að fjárfesta, fjárfesta í nýsköpun og leita á ný mið. Þróttur er dreginn úr þessu öllu saman sem leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs verða lægri en ella. Það eru gömul sannindi og ný að hagur ríkissjóðs felst fyrst og fremst í því að umgjörð efnahagslífsins sé samkeppnishæf, skattbyrðin hófleg og erlendri fjárfestingu tekið með opnum örmum. Þannig myndast sá grundvöllur sem er svo nauðsynlegur til að við sækjum fram, sköpum meiri verðmæti, náum fram meiri hagsæld hér á landi, sem er besta og öruggasta leiðin til að við getum styrkt okkar samfélag á sem flestum sviðum, á öllum sviðum, og aukið velsæld fyrir íbúa alla.