154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í byrjun september barst mér svar við fyrirspurn sem ég lagði fram í febrúar um framvindu uppbyggingar mannvirkja til varnar ofanflóðum. Svarið segir mér að það þarf að halda vel á spöðunum til að ná að ljúka öllum áætluðum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum árið 2030 eins og gert er ráð fyrir í uppfærðri framkvæmdaáætlun sjóðsins frá 2020. Bæði þarf að tryggja fjármögnun og breyta og bæta hönnun eftir því sem reynsla fæst af þeim mannvirkjum sem þegar hafa verið byggð. Hvort tveggja er vel mögulegt. Í svarinu eru líka mikilvægar og jákvæðar fréttir sem einnig hafa komið fram í tilkynningum frá ríkisstjórninni síðasta mánuðinn, þar á meðal að framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði hafa gengið hraðar en áætlað var og fjárveitingar til þeirra því auknar á þessu ári til að flýta verkefninu. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að flýta upphafi framkvæmda við næsta snjóflóðavarnargarð á Norðfirði um eitt ár þannig að þær framkvæmdir hefjist árið 2024 í stað 2025. Þar með verður síðasta stóra snjóflóðamannvirkið sem þarf til að verja íbúabyggðina þar komið. Loks segir í svari hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að hann hyggist leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þannig að lögin taki einnig til atvinnusvæða sem búa við ofanflóðahættu í þéttbýli og varnarmannvirkja sem þeim tengjast. Í dag rignir og rignir fyrir austan og ljóst að nýlega varnir og vöktunarkerfi eru þar að skila sínu.

Virðulegi forseti. Í þessum verkefnum megum við hvergi hvika frá áætlunum.