154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum ákveðin og skýr svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum í þessum sal en það gerðist einmitt í gær. Þau undur og stórmerki áttu sér stað í gær þegar ég var hér í óundirbúnum fyrirspurnum við hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, vegna þess skelfilega ástands sem ríkir í samfélaginu vegna fíknisjúkdóma. Ég var að benda á ótímabær dauðsföll vegna þess að fárveikt fólk — hversu alvarlegt getur það verið að vera fárveikur á Íslandi, getur það verið alvarlegra en að deyja á biðlista? Nei, það er ekki hægt að glíma við eins alvarlega hluti í heilbrigðiskerfinu og það að deyja á biðlista þegar það skortir fjármagn til að halda úti nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. En þau undur og stórmerki áttu sér stað í gær að hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að það væri í rauninni SÁÁ í sjálfsvald sett hvernig þau sæju um sína meðferðarþjónustu og þar vorum við að vísa til sex vikna lokunar á eftirmeðferðarheimilinu Vík. Það er lífsnauðsynlegt fyrir nánast alla þá sem leita sér meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi að fá eftirmeðferðina á Vík. Það hefur hingað til í dálítið langan tíma tíðkast að í sex vikur á sumri hverju hefur hreinlega verið lokað á Vík. Það eru ekki til peningar, ekki til fjármagn til að halda úti þeirri nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu. En heilbrigðisráðherra sagði það hér í gær fyrir framan allt og alla, og alþjóð um leið: SÁÁ og fárveikir sjúklingar fíknisjúkdóma þurfa ekki að hafa lengur áhyggjur af því að það þurfi að loka á Vík, þeirri meðferðarstofnun, því að heilbrigðisráðherrann sagði það hér í gær að það myndi ekki verða á hans vakt. Þannig að ég myndi segja að það væru gleðitíðindi, í allri þeirri sorg eru það gleðitíðindi og ég ætla að vona að það sé satt.