154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Elva Dögg Sigurðardóttir (V):

Virðulegi forseti. Síðastliðið ár hef ég búið í Danmörku og stundað þar nám. Í fyrrasumar, rétt áður en ég flutti út, keypti ég mína fyrstu íbúð á Íslandi. Vextir voru vissulega aðeins í hærri kantinum þá en samt heyrði ég að ég hefði verið heppin að kaupa á þessum tíma. Það á ekki að þurfa að vera byggt á heppni hvort maður geti keypt íbúð eða ekki. Þessi óvissa og óstöðugleiki er óþolandi. Á meðan ég fæ hnút í magann í hvert sinn sem vaxtabreytingar eru boðaðar þá upplifa vinir mínir í Danmörku ekki þennan séríslenska kvíða. Þau sjá lánin sín lækka og þau vita hvað þau borga í hverjum mánuði og næstu árin. Lánið er ekki kvíðavaldur. Hér á Íslandi líður varla sá dagur að ég heyri ekki rætt um vaxtahækkanir eða lánabyrði. Er eðlilegt að þetta sé eitt helsta umræðuefni í okkar daglega lífi?

Þegar ég er spurð hvort ég ætli ekki að flytja heim aftur finn ég fyrir efa. Hér á ég rætur, hér er fólkið mitt og auðvitað langar mig að flytja aftur heim en ég get ekki sagt að þetta umhverfi sé spennandi þar sem það að eiga íbúð jafngildir fjárhagsáhyggjum. Dönum tókst að búa til fyrirsjáanleika fyrir ungt fólk og það getum við líka, þannig að ungt fólk velji að koma heim og ekki bara vegna þess að það á rætur hér heldur vegna þess að hér er best að vera. Þess vegna stend ég hér í dag, því að ég hef trú á því að við getum gert svo miklu betur. Við þurfum bara að þora og stíga skref í rétta átt. Ég veit að við getum það og þess vegna langar mig að flytja aftur heim. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)