154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í haust gerði Maskína könnun um afstöðu landsmanna til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar. Það er alveg sama hvaða breytur eru skoðaðar, hvort sem tekið er tillit til menntunar, búsetu, kyns, heimilis, tekna eða stuðnings við stjórnmálaflokka er ríkur meiri hluti hlynntur því að bera framhald aðildarviðræðna um Evrópusambandið undir þjóðina sjálfa. Það var þó reyndar stuðningsfólk tveggja flokka, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, sem skar sig úr. Það kemur svo sem ekki á óvart en stuðningurinn var þó vel yfir 40% í báðum tilvikum. Innan hinna stjórnarflokkanna, VG og Framsóknar, mældist hins vegar ríflegur meiri hluti fylgjandi því að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið eða bera undir þjóðina. Það ætti því ekki, virðulegur forseti, að vera flókið fyrir þingheim að sameinast um þetta mikilvæga hagsmunamál, þetta skynsamlega en varfærna skref. Það virðist því vera að þjóðin sé, miðað við þessa skoðanakönnun, hreint út sagt ekkert klofin um þetta atriði, bara ekki neitt heldur þvert á móti. Vandamálið er að Íslendingar hafa aldrei verið spurðir álits, aldrei. Við erum því alltaf að rífast um innihald bókar sem aldrei hefur verið skrifuð. Það er því löngu tímabært að leiða fram hinn raunverulega þjóðarvilja með þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst um aðildarviðræður og, ef svarið er síðan játandi, þá um aðildarsamninginn sjálfan.

Ég mun mæla fyrir þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi framhald viðræðna hér á eftir. Ég vil hvetja þingheim til að taka þátt í þeim umræðum og hugleiða það raunverulega hvort ekki sé tímabært að taka þetta mál upp úr skotgröfunum og frá gíslingu Brexit-sinna þessa lands, sem vel að merkja er algjör minni hluti þjóðarinnar, og gefa okkur hinum frelsi til að ræða raunverulega hagsmuni okkar í þessu máli. Af hverju ekki?