154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ragnari Sigurðssyni, um leið og ég býð hann og aðra nýja þingmenn velkomna hér til starfa. Það eru áskoranir sem mæta Seyðfirðingum, ekki bara í veðurfari og flóðum, heldur líka í atvinnulífinu þar sem er fyrirsjáanlegt að 30 manns verða með uppsagnarbréf í höndunum að óbreyttu. Ég ætla hins vegar að tala aðeins í framhaldi af því sem hér var rætt um áðan. Það er hin sígilda umræða um Evrópusambandið. Ýmis rök kunna hníga að því að það geti verið hagfelldara fyrir Íslendinga að komast inn í a.m.k. stærra meint umhverfi en mér finnst að ég verði að deila því með ykkur sem einn af ábyrgðarmönnum þess að örflokkurinn Alþýðuflokkur, minn gamli flokkur, barðist fyrir því á sínum tíma að komast inn í Evrópska efnahagssvæðið með bjartsýni um að allt yrði betra að leiðarljósi. Ég var stoltur af því að við skyldum ganga inn í það efnahagssvæði og fá þar, sem þá var mjög mikilvægt, 10% niðurfellingu á aðalútflutningsvöru okkar, fiskinum.

Nú eru aðstæður mjög breyttar í fiskútflutningi og það er ekki eins ljóst að þar sé einhver tíund í boði eða til skiptanna. Ég vissi það ekki fyrr en ég settist inn á þingið að eftir að við höfðum innleitt allan þann þorra tilskipana og aðlögunar sem farið var fram á sínum tíma, við inngönguna fyrir 30 árum, þá hefur farið vaxandi sá straumur tilskipana sem eru í dag sirka 650 á hverju ári sem við þurfum að innleiða með öllum þeim flóknu kerfum og nefndarstörfum og þingstörfum. Gengjum við þar inn yrðu það 2.100 tilskipanir. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér í ljósi kvaða um gjöld frá EES og kvaða um skipagjöld og núna Schengen-gjöld, (Forseti hringir.) hvort nokkurs staðar sé að finna staf um að það sé tilskipanavald frá Evrópu um auknar álögur og skatta á Íslendinga. Ég lýsi eftir því. Ef einhver kynni að geta útvegað mér það, þá myndi ég þakka það.