154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

réttlát græn umskipti.

3. mál
[15:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að það þurfi að gera einkabílnum, einkasamgöngumátanum, hátt undir höfði og það er svo sannarlega verið að gera það líka með því að ráðast í uppbyggingu borgarlínu og að fjölga hjóla- og göngustígum. Að óbreyttu mun Reykvíkingum og höfuðborgarbúum fjölga um 60.000–70.000 á næstu árum og áratugum og ef ekkert verður gert þá gef ég ekki mikið fyrir það hvað það myndi taka hv. þingmann langan tíma að keyra á milli staðanna sem hann nefndi áðan. (Gripið fram í.) Ég vísa því algjörlega á bug að það sé ekki hægt að vinda ofan af þessu. Vissulega erum við borg og vorum óheppin í rauninni að byrja að þróa hana svona u.þ.b. þegar módernisminn verður til. Vesturbærinn hérna vestan Lækjargötu er þéttasti borgarhlutinn af því að hann byggðist kannski á öðrum forsendum og ég vísa þessu á bug vegna þess að við höfum dæmin fyrir framan okkur. Við þurfum ekki að vera að gera neinar tilraunir vegna þess að allar borgir sem búa við sama vanda og við Íslendingar með höfuðborgina okkar og höfuðborgarsvæðið eru á fullu einmitt að gera þetta og engir gera það af meiri krafti í augnablikinu kannski heldur en Bandaríkjamenn sem eru einmitt farnir að súpa seyðið af því að þetta er orðið svo ósjálfbært kerfi hjá þeim að launafólki sem hefur verið þrýst út í úthverfin notar tvöfaldan húsnæðiskostnaðinn sinn í bílakostnað. Og þetta er svo sannarlega ekki til að ýta undir græn umskipti þegar þau ríða yfir. Þannig að ég mótmæli þessu, ég held að það sé vel gerlegt og ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt verkefni.