154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

skattleysi launatekna undir 400.000 kr.

4. mál
[15:10]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um skattleysi launatekna undir 400.000 kr. á mánuði skatta- og skerðingarlaust — algerlega skatta- og skerðingarlaust. Með mér á þessu frumvarpi er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Það skal tekið fram að rétt áður en þingið hófst voru send út boð til allra þingmanna, flokka og ráðherra um meðflutning á þessu máli. Það er skemmst frá því að segja að það er enginn þingmaður á málinu með Flokki fólksins. Það sér enginn stjórnmálaflokkur eða þingmaður ástæðu til þess að berjast fyrir 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Það er í hróplegu ósamræmi í raun og veru, virðulegi forseti, við þann fagurgala sem heyrist hér úr sumum hornum þessa dagana.

Snúum okkur að þingsályktunartillögunni. Áratuginn sem leið dafnaði íslenskur efnahagur. Fjárhagsstaða íslenska ríkisins batnaði statt og stöðugt frá hruni og verðlag hélst hér nokkuð stöðugt. Launaþróun var einnig jákvæð. Þrátt fyrir þann árangur skilaði ábatinn sér ekki til allra. Svo kom heimsfaraldur kórónuveiru og fjöldi fólks missti vinnuna. Dregið hefur úr atvinnuleysi frá hápunkti heimsfaraldurs en á móti hefur verðbólga aukist verulega og stýrivextir hafa ekki verið hærri síðan árið 2009, árið eftir hrun. Regluleg útgjöld fólks hafa aukist, húsnæðisverð hefur hækkað til muna á skömmum tíma og þegar verðlag hækkar þá bitnar það óumdeilanlega verst á þeim sem minnst eiga. Það bitnar verst á fátæku fólki, þeim hópi sem munar um hverja einustu krónu í sínum útgjöldum. Á tímum sem þessum er nauðsynlegt að standa vörð um þá sem hafa minnst á milli handanna. Við megum ekki ítrekað skilja fátækt fólk eftir hjá garði svo að það eigi ekki fyrir sárustu nauðþurftum.

Ég ætla ekki að tala meira um þessa greinargerð. Ég ætla heldur að snúa mér að staðreyndunum í samfélaginu, hvernig raunveruleg staða fátækra er í samfélaginu í dag. Það hefur komið í ljós, nú síðast í skýrslu sem gefin var út af Hjálparstofnun kirkjunnar, að það er stórkostleg aukning hjálparkalla til Hjálparstofnunarinnar um aðstoð vegna fátæktar í okkar ríka landi. Það er einn þjóðfélagshópur sem situr þar algerlega eftir og það virðist ekki vera nokkur lífsins leið, alveg sama hvaða ríkisstjórn situr hér við stjórnvölinn, það er ekki nokkur leið að koma til móts við öryrkja í þessu landi. Þetta er sá þjóðfélagshópur sem á ekki val. Hann á í flestum tilvikum ekki val um að drýgja tekjur sínar eða vinna vegna þess að hann er líkamlega eða andlega ekki með getu til þess. Og hvað gerir íslenska velferðarsamfélagið fyrir þessa einstaklinga? Jú, múrar þá enn þá betur inni í fátæktargildrunni.

Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir frumvarpi um að gefa þeim einstaklingum sem mögulega treysta sér til tækifæri til að fara út á vinnumarkaðinn og vinna skerðingarlaust í tvö ár. Við erum með skýrslu og gögn frá öðrum löndum sem þetta hafa reynt sem sýnir fram á það að stór hluti — eins og í Svíþjóð, 32% þeirra öryrkja sem fóru út á vinnumarkaðinn og reyndu fyrir sér með þessum hætti skiluðu sér ekki aftur inn í almannatryggingakerfið þar. Mér er algerlega hulin ráðgáta að átta mig á því hvers vegna stjórnvöld hér gefa ekki þessum þjóðfélagshópi von og möguleika á því að hjálpa sér sjálfir ef þeir mögulega hafa nokkra getu til. Það er algerlega með hreinum ólíkindum. Það er sárara en tárum taki að þurfa að horfast í augu við að það er vegna þess að þeir áttu ekki hugmyndina. Það virðist engu máli skipta hversu góðar tillögur og mál við komum með hér, hvort sem það er Flokkur fólksins eða aðrir stjórnarandstöðuþingflokkar, þessi ríkisstjórn sem og ríkisstjórnin á undan og þar á undan — þetta virðist bara vera það form sem er haft viðhaft hér á okkar ágæta Alþingi. Nánast öll okkar vinna, öll okkar fyrirhöfn er gjörsamlega fótum troðin af ríkjandi ríkisstjórn hverju sinni. Það er í rauninni sárara en tárum taki að horfast í augu við að þó að hlutirnir jafnvel kostuðu ekki eina einustu krónu, væru ekkert annað en ávinningur fyrir alla, allt að vinna engu að tapa, stór hjálp fyrir hóp fólks sem annars á enga möguleika á því að hjálpa sér sjálft, þá er það slegið út af borðinu og sópað undir teppið.

Alveg frá því að Flokkur fólksins kom á Alþingi, var kjörinn á þing, höfum við mælt fyrir þessu. Við byrjuðum með 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust á 148. löggjafarþingi og á hverju löggjafarþingi síðan þá höfum við mælt fyrir þingsályktunartillögu sem felur hæstv. fjármálaráðherra að koma með frumvarp sem tryggir að það sé lágmarksframfærsla í landinu, skatta- og skerðingarlaust. Við í Flokki fólksins berjumst gegn því að fátækt fólk sé skattlagt, við berjumst gegn skattlagningu á fátæku fólki, hvað þá sárafátæku fólki. Ég ítreka að það er enginn þingmaður fyrir utan Flokk fólksins með okkur á þessari þingsályktunartillögu þrátt fyrir boð um slíkt, ekki einn, þannig að ég velti fyrir mér hugarfarinu almennt, virðulegi forseti.

Það hefur gjarnan verið sagt: Hvernig ætlið þið að fara að því að fjármagna 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust? Hvar ætlið þið að taka peningana? Við í Flokki fólksins höfum líka ítrekað mælt fyrir frumvarpi sem felur það í sér og það er ég einmitt að fara að gera síðar í dag vonandi ef við höfum tíma til og það færist ekki yfir á einhvern annan dag. Að öllu jöfnu mun ég mæla fyrir því frumvarpi sem mun auka tekjur ríkissjóðs hvert einasta ár um á bilinu 60–70 milljarða kr. Það felur ekki í sér einhverja einskiptisaðgerð, það að selja hluta í banka, hvernig svo sem það hefur tekist til, heldur einfaldlega tryggir þessa föstu innkomu í ríkissjóð sem felur það í sér einfaldlega að afnema undanþágu lífeyrissjóða frá staðgreiðslu við innborgun í sjóðina. Við viljum að allir þeir sem greiða í lífeyrissjóði greiði strax staðgreiðslu af því. Við í Flokki fólksins viljum fá þetta fé strax inn í ríkissjóð. Við í Flokki fólksins viljum afnema skerðingar og við viljum afnema skattlagningu á sárafátækt. Í gegnum þennan tíma minn á þingi hef ég talað við hundruð einstaklinga sem hafa greitt í lífeyrissjóð. Margir eru farnir að taka út úr sjóðnum núna sem ellilífeyrisþegar og það ber öllum saman um að þau hefðu frekar viljað vera búin að greiða staðgreiðsluna í stað þess að láta taka hana af sér seinna á æviskeiðinu. Svo er líka vert að benda á að margir einstaklingar hafa fallið frá áður en kemur að töku úr lífeyrissjóði, áður en þeir geta nýtt sér greiðslurnar úr lífeyrissjóðnum sem þeir voru þó búnir að vinna fyrir.

Flokkur fólksins, eins og sumir aðrir þingflokkar hér, hann fæddist tilbúinn. Hann hefur verið með lausnir og hann hefur bara gengið eina línu, eina beina línu: Réttlæti, sanngirni og útrýming á fátækt. Til þess erum við hér og til þess var Flokkur fólksins stofnaður og ekki til neins annars. Nú er það alveg sýnilegt að það er ekki bara að það sé vaxandi kjaragliðnun í landinu, það hefur ekki farið fram hjá neinum nema þeim sem þykjast ekki sjá, eins og ríkisstjórnin, að matarkarfan hefur hækkað stórkostlega, allur aðbúnaður, öll gjöld og allt í kringum okkur hefur rokið upp í verði. Þeir sem hafa setið eftir eru því í rauninni í enn verri stöðu ef þess er nokkur kostur. Hér í Reykjavík eru hátt í 400 einstaklingar t.d. á götunni, í orðsins fyllstu merkingu húsnæðislausir. Það líður ekki sá dagur að ég fái ekki bréf, neyðaróp frá einhverjum einstaklingum úti í bæ sem spyrja mig hvort ég geti ekki útvegað honum herbergi eða útvegað henni húsnæði.

„Hjálpaðu mér upp. Mér finnst ég vera að drukkna.“

Það er alveg ótrúlega erfitt, virðulegi forseti, að vera með hugsjónir og risahjarta til að taka utan um þá sem eiga bágt og finna sig svona vanmáttugan. Það er enn erfiðara að koma með lausnir og góð mál sem myndu hjálpa og finna ekki stuðning frá einum einasta þingmanni á Alþingi Íslendinga fyrir utan Flokk fólksins þrátt fyrir óskir þar um. Dæmi hver sem vill.

Það er ekki bara það að við viljum staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði til að ná í fjármagn til að standa straum af kostnaði við þær aðgerðir sem við erum að boða hér heldur felur þessi þingsályktunartillaga í sér mjög auðvelda og þægilega útfærslu á svokölluðum fallandi persónuafslætti sem færir í rauninni persónuafsláttinn frá okkur sem erum hátekjufólk og þurfum minna á honum að halda til þeirra sem raunverulega eru að glíma við sárafátækt og þurfa meira á honum að halda heldur en við. Við í Flokki fólksins teljum ósanngjarnt að milljónamaðurinn sé að fá persónuafslátt upp á tæpar 60.000 kr. á mánuði þegar sá sem er að fá útborgað undir 300.000 kr. þyrfti meira á því að halda. Með því að koma með þennan fallandi persónuafslátt inn í kerfið, með því að stýra fjármagninu þaðan sem er nóg af því og betur niður og dreifa því jafnar, þangað sem meiri þörf er á því, þyrftum við nánast ekki að nota neitt af þessum 70 milljörðum sem við ætlum að fá við staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði í þessa breytingu, þ.e. 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust.

Í þessari þingsályktunartillögu er líka gert ráð fyrir því að það sé tekið sérstaklega utan um sveitarfélögin vegna þess að það fyrsta sem við erum að greiða, af lágu laununum ekki síður en öðrum launum, er útsvarið til sveitarfélaganna. Þessi útfærsla myndi þó bitna helst á sveitarfélögunum ef þau ættu ekki að fá útsvarið sitt greitt, sem er það fyrsta sem greitt er af. Það á að tryggja sveitarfélögunum að þau muni í engu missa af sínum tekjum, enda hafa þau sannarlega ekki ráð á því. Mörg sveitarfélögin okkar eru hreinlega að róa lífróður þar sem ríkisvaldið er búið að fleygja í fangið á þeim svo mörgum verkefnum þar sem fjármagn hefur ekki fylgt að þau eru mörg hver að sligast undan þeirri ábyrgð.

Við skulum t.d. taka húsnæðismarkaðinn. Við í Flokki fólksins segjum: Fólkið fyrst, svo allt hitt. Einhverra hluta vegna er ég farin að heyra það hljóma einhvers staðar úr öðrum stjórnmálaflokki, fólkið fyrst, en það er mjög gott og sérstaklega ef viðkomandi hefðu viljað vera með okkur á þessari þingsályktunartillögu. En hvað um það, fólkið fyrst, svo allt hitt — hættum að skattleggja fátækt.

Við í Flokki fólksins hvetjum alla til þess að opna hug og hjarta gagnvart okkar minnstu bræðrum og systrum. Tökum utan um fólkið okkar sem þarf virkilega á hjálp okkar að halda. Það á ekki að skipta máli í hvaða flokki við stöndum. Við eigum að geta tekið saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum. Við eigum að geta staðið okkur fyrir alla og við eigum að geta gert það með reisn og við eigum að geta gert það þannig að við getum horfst í augu við sjálf okkur, ánægð með störfin og verkin sem við hér erum að vinna í þágu allra sem á þurfa að halda.