154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

skattleysi launatekna undir 400.000 kr.

4. mál
[15:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um tillögu til þingsályktunar um lífsnauðsynlegt mál Flokks fólksins, 400.000 kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga, skatta- og skerðingarlaust. Sumir halda því fram að það væri eiginlega óframkvæmanlegt að þessi verst setti hópur fengi 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, það væri svo dýrt. Það sem er dýrt í þessu þjóðfélagi er að hér skuli vera fólk sem er haldið í svo mikilli fátækt, í sárafátækt, að það á ekki fyrir mat, lyfjum, fötum, hvað þá öðrum nauðsynjum sem eru í þeirra augum hálfgerð lúxusvara. Þá neitar stór fólks á lægstu launum sér um tannlæknaþjónustu og aðra læknisþjónustu og hefur ekki ráð á 80.000 kr. óvæntum útgjöldum. Fólkið sem er á lægsta lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og er langt undir fátæktarmörkum, er í sárafátækt, getur á engan hátt framfleytt sér í dag.

Það sorglega í þessu öllu saman er að við gleymum veigamesta og ljótasta og ömurlegasta fátæktarumhverfinu en það eru börnin sem eru þar inni í boði ríkisstjórnarinnar. Hvernig í ósköpunum getum við réttlætt það áratugum saman að hafa börn í þessum aðstæðum, að börn þurfi að standa í röð með foreldrum sínum til þess að bíða eftir að fá gefins mat? Það er ríkisstjórninni svo sannarlega til háborinnar skammar að hafa þetta svo.

Árið 1988 var tekin upp staðgreiðsla opinberra gjalda. Þá voru lægstu lífeyrislaun almannatrygginga skattlaus og það voru 30% eftir af skatttekjunum til þess að setja í lífeyrissjóð eða annað. Hvað hefur skeð síðan þá? Jú, skattar hafa stórhækkað á þá verst settu í almannatryggingakerfinu og á lægstu vinnulaun. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur stórhækkað skatta og nú er farið að skatta fátækt fólk til sárafátæktar. Hvar eru mannréttindi og jafnrétti þegar við segjum við fólk sem hefur ekki einu sinni efni á því að kaupa sér mat: Nei, þið verðið að borga skatta upp á 35, 40, 50, 60.000 kr. en ekki eyða peningunum í mat heldur bara svelta? 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, er það einhver ofrausn í þessu samhengi? Er það há tala? Nei, það er langt frá því og ef eitthvað er er hún of lág. Í þokkabót eru lífeyrissjóðsgreiðslur skertar um 38,9% hjá öryrkjum og 45,5% hjá öldruðum á lífeyrislaunum frá TR.

Þessi skatta- og skerðingarstefna bítur fast fjárhagslega þá sem síst skyldi. Hún bítur sérstaklega illa þá sem eiga minnstan rétt í lífeyrissjóðum en það eru að stærstum hluta konur. Það er verið að tala um að endurskoða almannatryggingakerfið en við getum ekki farið í þá endurskoðun fyrr en við tökum á grundvallarmannréttindum, þ.e. lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það hlýtur að vera ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin dregur lappirnar við að lögfesta hann því að um leið og hún hefur lögfest samninginn getur hún ekki brotið á réttindum fatlaðs fólks eins og hún gerir í dag. Það hringja allar viðvörunarbjöllur í huga mér þegar ég heyri ríkisstjórnarflokkana aftur og aftur lofa að núna sé tími þessa fólks kominn, að þessi hópur geti ekki beðið lengur, að þessir einstaklingar geti ekki beðið lengur. Það er ekkert annað en innantómt fals því að þau bíða og bíða og bíða enn eftir réttlætinu.

Hvar eru stjórnarliðar t.d. í þessari umræðu? Þeir gætu sýnt fram á að þeir meini eitthvað með því sem þeir segja um að þetta fólk geti ekki beðið lengur og komið hér í ræður en auðvitað mæta þau ekki. Þau koma ekki hingað upp og taka undir að 400.0000 kr. lágmarksframfærsla, skatta- og skerðingarlaust, eigi rétt á sér og sé fyrsta skrefið til að útrýma fátækt og hvað þá sárafátækt. Þau geta ekki einu sinni tryggt að enginn þurfi að fara í þá niðurlægingarför með börnin sín að standa í röð eftir mat, að enginn þurfi að neita sér um tannlæknaþjónustu, að enginn þurfi að neita sér um læknisþjónustu. Vinnandi fólk þarf meira að segja að neita sér um tannlæknisþjónustu.

Það er eitthvað stórkostlega bogið við að við viljum ekki reikna rétta framfærslu og borga hana. Það er ekkert auðveldara en að reikna nákvæmlega hvað einstaklingur og fjölskylda þarf til framfærslu til að lifa mannsæmandi lífi. Af hverju er það ekki gert? Vegna þess að ríkisstjórnin vill það ekki. En vonandi, þó að það sé mjög ólíklegt, eftir næstu kosningar verður ekki lengur hangið á þessu ómannúðlega og fjárhagslega ofbeldi sem nú er beitt gegn fólki sem hefur það verst hér í okkar ríka landi og á enga möguleika á að verja sig og sína gegn þessu óréttlæti.

Persónuafsláttur ætti að vera í dag, ef rétt væri gefið, ríflega 90.000 kr., nálægt 100.000 kr., en er 59.600 kr. Og ríkisstjórnin boðar að hann eigi að fara í 64.600 kr. Þetta sýnir hvernig hlutirnir eru og hversu rangt er gefið. Á sama tíma er í fjárlögum heimild til tvöföldunar á stuðningi við einkarekna fjölmiðla. Almannatryggingar hækka á sama tíma bara um 4,9% en útgjöld vegna einkarekinna fjölmiðla um 10,7%. Þarna munar nærri 6%. 6% meira fyrir einkarekna fjölmiðla á ríkisstyrk. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra tvisvar um þetta í gær. Hann svaraði í hvorugt skiptið. Hann gat ekki svarað því hvernig í ósköpunum þau gátu reiknað það út að einkareknir fjölmiðlar þyrftu að fá tvöföldun á sínu framlagi og ekki nóg með það heldur 10,7% hækkun þegar þeir bjóða þeim sem eru á almannatryggingum 4,9%. Það er alveg með ólíkindum að á sama tíma og þurfum við að standa hér og reyna að berjast fyrir því að 400.000 kr. séu skatta- og skerðingarlausar. Ég spyr mig bara að því hversu margir hér inni og úti teldu að þeir væru í rosalega góðum málum og að það væri einhver ofrausn að fá 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Ég held ekki.

Við vorum að tala um 62. gr., sem var áður 69. gr., að það eigi að hækka almannatryggingar samkvæmt launaþróun. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á það áðan. En hefði það dugað til? Nei, það er nefnilega það sem þeir hafa verið að gera á undanförnum árum, að hækka bætur almannatrygginga en á sama tíma passa þeir sig á að taka aldrei á skerðingum. 109.600 kr. voru lengi frítekjumörk atvinnutekna en fóru nú í 200.000 kr. og ættu að fara í 215.000 kr. en hæstv. fjármálaráðherra finnst ekkert eðlilegt að það yrði um 14.000 kr. hækkun á mánuði á frítekjumarki öryrkja vegna þess að það sé verið að endurskoða lögin. Það hræðir mig. Ef hann ætlar að endurskoða almannatryggingalögin en getur ekki einu sinni farið að lögum og hækkað nú strax frítekjumarkið þá er eitthvað meira en lítið í gangi og því miður óttast ég að það sé ekki gott.

Okkur ber skylda til að sjá til þess að enginn lifi í fátækt og hvað þá í sárafátækt. Þar af leiðandi ber okkur líka skylda til að samþykkja 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust núna strax. Það er engin ofrausn, bara lágmarkið til að einstaklingar og fjölskyldur þurfi ekki að standa í biðröð eftir mat heldur kaupi sinn mat eins og aðrir og eigi einnig fyrir öðrum nauðsynjum sem fjölskyldur og einstaklingar þurfa á að halda til að lifa mannsæmandi lífi. Það getur ekki nokkur maður talið það ofrausn að allir geti farið út í búð og valið þann mat sem þeir vilja handa sér og fjölskyldu sinni og að við getum séð til þess í eitt skipti fyrir öll að ekkert barn þurfi að alast upp í fátækt, hvað þá sárafátækt.