154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

skattleysi launatekna undir 400.000 kr.

4. mál
[15:43]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er stoltur meðflutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu um skattleysi launatekna undir 400.000 kr. og 400.000 kr. lágmarksframfærslulífeyri. Hér er verið að tala um að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði 400.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður í sveigðu ferli við ákveðin efri mörk. Það er margbúið að flytja þetta mál, alveg síðan Flokkur fólksins komst fyrst inn á þing en þá voru það 300.000 kr. Það segir kannski sitt um verðbólguna og verðlag í landinu að nú eru þetta orðnar 400.000 kr.

Einnig er kveðið á um að breytingar verði gerðar á skiptingu útsvars og tekjuskatts af skattstofni til að jafna tekjuáhrif vegna hækkunar skattleysismarka á milli ríkis og sveitarfélaga. Hér er raunverulega verið að taka tillit til þess að kostnaður vegna þessara aðgerða dreifist jafnt á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Þess vegna þarf að kveða á um breytingu á útreikningi útsvars, ella er hætta á því að tekjutap lendi að mestu leyti á sveitarfélögunum þar sem tekjulágir borga hlutfallslega meira til sveitarfélaga heldur en ríkis. Það er mikilvægt að það jafnist út.

Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að tryggður skuli réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Þetta er eitt af grundvallarákvæðum mannréttindakaflans, að enginn skuli falla í örbirgð. Þessi vernd er ekki virt hvað þetta varðar gagnvart okkar minnstu bræðrum og systrum, varðandi lágmarksframfærslu. Það sjá allir að enginn getur lifað af 200.000 kr., 250.000 kr. eða 300.000 kr. á mánuði. Það er ekki mögulegt miðað við þann gríðarlega húsnæðiskostnað sem er í dag og matarverð. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við hér á Alþingi Íslendinga forgangsröðum rétt og samþykkjum þetta mál og ákveðum það í eitt skipti fyrir öll að 400.000 kr. sé lágmarksframfærsla. Það má meira að segja efast um að það sé nægjanlegt.

Ísland er eitt ríkasta land í heimi. Síðast þegar ég athugaði vorum við í sjötta sæti yfir ríkustu lönd OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, sem er eins konar klúbbur ríkra þjóða í heiminum. Það að við skulum ekki geta séð til þess að skattleysi launatekna sé tryggt undir 400.000 kr. er algerlega með hreinum ólíkindum. Hugsið ykkur; þú ert með 400.000 kall á mánuði og það er tekinn skattur af þeim. Þú getur ekki haft 400.000 kall í ráðstöfunartekjur, það er tekinn skattur af þeim.

Í frumvarpinu er líka kveðið á um það að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi lífeyrisþegum 400.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Það er ekki verið að gera það í dag. Það að verið sé að skerða fólk þannig að ef það fær frá lífeyristryggingum þá skerðist almannatryggingarnar og ef það aflar launatekna sé verið að skerða þann lífeyri sem fólk fær úr almannatryggingum er ekkert annað en hneyksli og dregur úr sjálfsbjargarviðleitni og sjálfstæði fólks.

Í skýrslu um dreifingu á skattbyrði sem unnin var fyrir stéttarfélagið Eflingu og birt í febrúar 2019 kemur fram að á árunum 1993–2015 lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa á meðan skattbyrði lægstu tekjuhópa jókst. Á undanförnum árum er sem sagt búið að vera að lækka skattbyrði tekjulægstu hópana og auka hana hjá þeim tekjulægstu. Á sama tíma hækkaði fasteignaverð verulega og síðan þá hefur hækkunin aukist og nánast í veldisvexti. Við þekkjum þessa sögu um fasteignaverðið. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu á síðasta áratug hækkaði úr 365 stigum í 966 stig samkvæmt þjóðskrá, þrefaldaðist nánast. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 165% á síðustu tíu árum. Þá hefur húsnæðisverð hækkað ört á landsbyggðinni. Þessi þróun kemur verst við lágtekjufólk, tekjulægsta fólkið sem þarf að verja stærstum hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað. Afleiðingarnar birtast m.a. í því að hlutfall leigjenda hefur aukist og ungmenni flytja nú seinna að heiman. Þið getið rétt ímyndað ykkur að einstaklingur sem er með 300.000 kr. í ráðstöfunartekjur þarf sennilega að eyða jafnvel upp í tvo þriðju eða meira af tekjum sínum í leigu, örugglega hátt í 200.000 kr. Ef hann er með 300.000 kall í ráðstöfunartekjur á ég eftir að sjá það húsnæði sem hann getur fengið fyrir 100.000 kall. Það er sennilega einhver herbergiskytra.

Þetta kemur líka inn á annað mál sem er skattkerfið. Mikil umræða hefur á síðustu árum verið um það hvernig breyta eigi skattkerfinu þannig að það íþyngi ekki þeim sem minnstar tekjur hafa. Hér er verið að leggja fram þingsályktunartillögu um nákvæmlega það að íþyngja þeim ekki sem minnstar tekjur hafa. Um það fjallar hreinlega 1. töluliðurinn, að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði 400.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður með sveigðu ferli yfir ákveðin efri mörk. Þetta er grundvallaratriði; að tryggja skattleysi tekjulægsta hópsins.

Það að auka ráðstöfunartekjur til tekjulægri hópa myndi auka hlutfallslega skattbyrði hinna tekjuhæstu. Það væri verið að leiðrétta það sem búið er að eiga sér stað á undanförnum árum, ef við tökum upp fallandi persónuafslátt. Við erum ekki að tala um háar fjárhæðir, ég tek það fram. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt réttindamál að ræða og þetta á stoð í stjórnarskránni, 76. gr. Tekjulægsti hópurinn er nánast í örbirgð, hann er í örbirgð. Það geta allir sagt sér það sjálfir. Almannatryggingakerfið á að tryggja þeim sem þurfa á að halda grundvallarmannréttindi; fæði, klæði og húsnæði. 76. gr. kveður raunverulega á um það. Ríkisvaldið á ekki að dæma einstakling í ævilanga fátækt ef viðkomandi er svo ólánsamur að verða öryrki.

Það er nauðsynlegt að hækka lágmarksframfærsluviðmið almannatrygginga svo að það taki utan um og verndi með viðhlítandi hætti þá sem verst standa og mest þurfa á hjálpinni að halda. Það þarf að gera með tvennum hætti. Það er með því að hækka skattleysismörk og síðan með því að hækka lágmarksviðmið almannatrygginga til að ná því upp sem upp á vantar. Um það fjallar þetta mál. Um það fjallar 1. töluliðurinn, um skattleysismörkin, fallandi persónuafslátt, og síðan er í 2. tölulið tekið tillit til þess að þetta falli jafnt á sveitarfélög og ríki. 3. töluliðurinn fjallar um að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi ellilífeyrisþegum 400.000 kr. í ráðstöfunartekjur. Það er einfaldlega varla hægt að lifa á Íslandi með minna. Það er mjög erfitt, sé tekið tilliti húsnæðis og til hins dýra matarverðs. Þetta er mannréttindamál sem á sér stoð í lögum, í stjórnarskránni, sem er kominn tími til að samþykkja.