154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga eða réttara sagt til leiðréttingar á mistökum sem gerð voru við breytingar á lögum um útlendinga hér á Alþingi þann 15. mars síðastliðinn. Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem samþykkt var hér fyrr á árinu var m.a. samþykkt ákvæði sem sviptir umsækjendur um alþjóðlega vernd allri þjónustu að 30 dögum liðnum eftir synjun umsóknar. Breytingin sem hér um ræðir hefur þann tilgang að knýja fólk til heimfarar sem ekki er hægt að flytja sjálft. Áður en þessi breyting tók gildi, sem gerðist í sumar, var það þannig, og hluti af því er enn þannig, að flestir einstaklingar sem fá synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd fara með eða án aðstoðar lögreglu. Þau sem ekki vilja fara eru flutt hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í einstökum tilvikum er það ekki hægt. Í einstökum tilvikum búa stjórnvöld við ómöguleika við að flytja fólk úr landi þrátt fyrir að það hafi fengið synjun og sé ekki með leyfi til dvalar hér, almennt er það vegna skorts á samningum við þau ríki sem á að senda fólk til. Annars eru þessi mál ansi fjölbreytt og mun ég fara aðeins betur í það í ræðu minni hér á eftir.

Hver var tilgangur þessara laga að sögn flutningsmanna og stuðningsmanna? Bara svona til að varpa ljósi á það og gæta sanngirni ætla ég að byrja á að lesa upp úr greinargerð með frumvarpinu sem var samþykkt þann 15. mars síðastliðinn. Svartur dagur í sögu Íslands. Með leyfi forseta:

„Hafa þannig útlendingar, sem sótt hafa um alþjóðlega vernd og fengið endanlega synjun í máli sínu á stjórnsýslustigi, haldið áfram að njóta fullrar þjónustu sem umsækjendur þar til þeir hafa farið af landi brott. Þar sem ekki kemur fram í lögunum hvenær umrædd þjónusta fellur að jafnaði niður hafa sumir útlendingar í þessari stöðu notið óskertrar þjónustu í jafnvel nokkur ár vegna erfiðleika stjórnvalda við framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, m.a. sökum skorts á samstarfi þar um af hálfu útlendingsins.“

Ég stekk aðeins áfram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Annars staðar á Norðurlöndum eru einnig rekin svokölluð lokuð búsetuúrræði (e. detention center) sem ætluð eru til vistunar fyrir ríkisborgara þriðja ríkis sem eru í ólögmætri dvöl, t.d. einstaklinga sem hlotið hafa endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða húsnæði sem skerðir verulega ferðafrelsi viðkomandi, oftast með þeim hætti að viðkomandi er ekki heimilt að yfirgefa húsnæðið.“

Það var sem sagt markmið frumvarpsins að knýja fólk sem hefur fengið synjun á umsókn sinni en fer ekki sjálfviljugt og vill ekki sýna samstarf um flutning sinn aftur til baka í gin ljónsins, það sé ekki áfram á forræði íslenska ríkisins með alla þá þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta.

Til að skýra það allt saman langar mig að byrja á því að útskýra hvaða þjónusta það er sem fólk fær. Þjónustan felst í húsaskjóli sem er mjög mikil lágmarksaðstaða að jafnaði. Að jafnaði er þetta herbergi sem einstaklingar deila jafnvel með öðrum einstaklingum eða húsnæði, íbúð, með öðrum einstaklingum sem þau fá ekki að velja. Það er mjög algengt. Ákveðinn peningur er veittur þar sem þetta er ekki svona móttökumiðstöð með mötuneyti eins og tíðkast víða heldur þarf fólk sjálft að kaupa inn og elda og sjá um sig og þá fær það 8.000 kr. á viku til þess að eiga fyrir öllum nauðsynjum, þar með talið mat, hreinlætisvörum, jafnvel ferðir eru inni í þessum peningum. Þá njóta umsækjendur um alþjóðlega vernd ákveðinnar lágmarksheilbrigðisþjónustu. Í frumvarpinu er ranglega talað um tannlæknaþjónustu, kannski ekki beinlínis ranglega en það er ýjað að því í frumvarpinu að þjónustan sé gríðarlega mikil. Ekki það að það er talin upp þjónusta á við grunnskólagöngu barna og annað slíkt sem ég held að allir séu sammála um að sé allra hagur að börn njóti sama hvaðan þau koma og í hvað stöðu þau eru. En tannlæknaþjónustan sem veitt er umsækjendum um alþjóðlega vernd er í reynd þannig að ef þú færð skemmd í tönn og hún er of mikil, og undir venjulegum kringumstæðum yrði gert við hana, þá er tönnin dregin úr af því að það er ódýrara. Þetta er algjör lágmarksþjónusta. Það er það sem ég er fyrst og fremst að reyna að benda á. Það er ekki þannig að fólk dvelji hér langdvölum vegna þessarar þjónustu.

En markmiðið var sem sagt þetta og það var alveg skýrt í máli þeirra sem studdu þetta frumvarp og þeirra sem töluðu fyrir því innan úr stjórnsýslunni að markmiðið væri að fólk myndi fara „sjálfviljugt“ þegar ekki var hægt að flytja það nauðungarflutningum. Við spurðum ítrekað við vinnslu málsins í allsherjar- og menntamálanefnd og hér í þingsal: Hvað ef þau fara ekki? Hvað ef einstaklingur fer ekki þrátt fyrir að vera sviptur þjónustu? Eina svarið sem okkur var boðið upp á var: Þau eiga bara að fara.

Hver er gallinn við þetta mál? Það sem ég mun fyrst og fremst tala um hérna til að vekja athygli á nauðsyn þess að fella þetta ákvæði brott, sem er það sem við erum að leggja til með því frumvarpi sem við erum að ræða hér nú, er að það er meingallað. Forsendur þessarar reglu eru rangar í alla staði, alveg sama hvar fólk stendur í pólitík, í afstöðu sinni gagnvart meðferð mála hælisleitenda og umsókna um alþjóðlega vernd. Ég ætla að byrja á að vitna í góða grein sem birtist í Heimildinni fyrir mjög stuttu síðan eftir Magneu Marinósdóttur sem hefur áralanga reynslu af þessum málaflokkum. Góð grein þar sem vísað er í mikið af heimildum og ég hvet alla, ekki síst þau sem studdu þetta mál, á hvaða forsendum sem það var, til að lesa þessa grein og kynna sér þær heimildir sem þar er vísað til. Með leyfi forseta:

„Varað var við þessum afleiðingum laganna í umræðum á Alþingi. Von og trú stjórnvalda virðist hins vegar hafa verið sú að fólk myndi láta sér segjast og vegna þrýstings, hjálparleysis og örbirgðar hverfa einhvern veginn á brott á endanum. Þessi viðleitni endurspeglar takmarkaðan skilning á fólki á flótta og þeim erfiðu ástæðunum sem liggja að baki hlutskipti þeirra.“

Forsendurnar eru þær að fólk muni fara. Því var haldið fram við vinnslu málsins og því er haldið fram í greinargerð, þó að það hafi verið gengið lengra í umræðum, að með þessari breytingu sé einhvern veginn verið að laga íslensk lög að lögum annarra ríkja í kringum okkur. Svo er ekki og mun ég sýna fram á það. Því var líka haldið fram að þetta snerist um skilvirkni, það gerir það augljóslega ekki, og annað en ég ætla einbeita mér að þessu með nágrannalöndin.

Eins og kom fram í greinargerð með lögunum sem voru samþykkt 15. mars, þar sem þessi þjónustusvipting var sett í lögin, er vísað í þessi lokuðu búsetuúrræði og aðrar aðferðir sem Norðurlöndin hafa til að taka á því þegar einstaklingur er búinn að fá synjun en neitar að fara og ekki er hægt að flytja hann. Í nokkrum ríkjum eru svoleiðis búðir. Við erum ekki með neinar svoleiðis búðir. Við erum ekki með nein slík úrræði. Það er ein forsenda frumvarpsins sem er þegar brostin. Við erum að byrja á öfugum enda, jafnvel þótt við værum á þeirri skoðun að það eigi að loka alla inn sem eru ekki með dvalarleyfi á meðan beðið er eftir að þeir verði fluttir burt. Það er verið að gera þetta frá öfugum enda. Það á augljóslega að byrja á að byggja upp þetta lokaða búsetuúrræði áður en fólk er svipt annarri þjónustu, annars erum við bara að skapa vandamál en ekki að leysa þau.

Ég ætla aðeins að fara yfir það hvernig þetta virkar í framkvæmd. Langoftast er fólk flutt með valdi í kjölfar synjunar, fari það ekki sjálfviljugt. Eins og ég nefndi áðan er mjög algengt að fólk fái synjun á umsókn sinni, það getur farið til baka, það reyndi þessa leið, hún gekk ekki og þá fer það til baka. Reynir annars staðar, leitar annarra leiða, gerir eitthvað annað, reynir að finna aðra lausn og fer. Ef fólk vill ekki fara þá er það flutt með lögregluvaldi. Það er gert á grundvelli endurviðtökusamninga við hin og þessi ríki eða annars konar samkomulags á milli ríkja vegna þess að það er ekki þannig að stjórnvöld ríkis geti bara dömpað fólki þar sem þeim dettur í hug. Ríkið sem tekur við þarf að samþykkja það. Það er ekki hægt að koma með fullt af fólki til Íslands. Ísland þarf annaðhvort að samþykkja móttöku fólksins eða fólkið þarf að hafa viðurkennda og skjalfesta heimild til komu og dvalar. Þetta á við um önnur ríki líka. Það er ekki hægt að fara bara og fleygja fólki til Sýrlands. Ríki gera með sér endurviðtökusamninga til að leysa úr þeim málum þegar einstaklingar eru ekki með skilríki og annað slíkt og þá snýst það fyrst og fremst um það að ríkið taki við sínum eigin borgurum sem hafa fengið synjun um dvöl annars staðar. Alþjóðlegar reglur heimila líka stjórnvöldum að flytja fólk til annarra landa gegn vilja sínum ef það hefur þar heimild til komu og dvalar. Það er því langoftast svo að það sé hægt að flytja fólk jafnvel þó að það vilji ekki fara. Ég ætla leyfa mér að segja því miður, en það er þannig, við erum með þannig ramma til að vinna með.

Í ofanálag er til alþjóðastofnun sem heitir IOM, með leyfi forseta, International Organization for Migration, Alþjóðafólksflutningastofnunin, eða ég er ekki viss um hvernig það þýðist, hef fyrirvara um það, afsakaðu forseti. Þessi stofnun hefur það hlutverk að aðstoða ríki við flutning á fólki sem er t.d. ekki með skilríki eða erfitt er að flytja. Það er ekki hlaupið að því að bóka flug með Icelandair til Íraks eða slíkt, en þessi stofnun getur séð um slíka flutninga og jafnvel til ríkja þar sem er mikill skortur á stjórnsýslu og öðru. Stofnunin aðstoðar reyndar líka fólk við að komast á leiðarenda sem er að fara sjálfviljugt. Í rauninni vinnur stofnunin þannig að hún flytur fólk ekki einhverjum nauðungarflutningum en aðstoðar fólk við að komast þangað sem það myndi kannski annars ekki komast sjálft eða með aðstoð stjórnvalda. Þessi stofnun er hins vegar engin mannúðarsamtök og er hluti af Sameinuðu þjóðunum frá því tiltölulega nýlega og Ísland hefur gert samninga við þessa stofnun. Það er ekki óalgengt að fólk sé flutt í samstarfi við stofnunina til heimalands eða annars lands þar sem það hefur heimild til komu og dvalar. Lítinn hluta fólks er ekki hægt að flytja gegn vilja sínum, líkt og ég sagði, mjög lítið brot. Þetta er bara lítið brot umsækjenda sem ekki er hægt að flytja gegn vilja þeirra, fólkið er ekki reiðubúið að fara sjálfviljugt þrátt fyrir efnahagslega hvata, t.d. er fólki gjarnan boðinn svokallaður heimfararstyrkur, jafnvel upp á fleiri hundruð þúsunda, styrkur til enduraðlögunar í upprunalandinu, eins og það er kallað. Þetta var sett á fót til að hvetja fólk til að fara í kjölfar synjunar og er einhvers konar aðstoð við að koma undir sig fótunum í heimaríkinu í þeirri trú að fólk sé ekki í hættu þar heldur þurfi bara að koma undir sig fótunum. En þrátt fyrir efnahagslega hvata er sumt fólk sem vill ekki fara. Þrátt fyrir hótanir af hálfu stjórnvalda eru nokkrir einstaklingar sem vilja ekki fara og fara ekki, þrátt fyrir að búa við mjög erfiðar aðstæður hér á landi.

Rauði krossinn á Íslandi gaf út skýrslu fyrir síðustu áramót um stöðu fólks í umborinni dvöl, eins og það var kallað þá, líka af hálfu stjórnvalda, til að lýsa þeirri stöðu þegar einstaklingur hefur ekki dvalarleyfi hér á landi en það er ekki hægt að flytja hann. Þessi skýrsla sýndi svart á hvítu að þessir einstaklingar eru í gríðarlega erfiðri stöðu. Þau upplifa sig í biðstöðu, upplifa sig í tómarúmi, upplifa sig réttlaus og eru almennt vonlítil um framtíðina, telja sig vera á hálfgerðri endastöð og ekki hafa neitt að leita. Þetta eru einstaklingarnir sem ákveðið var með lagabreytingunni í mars síðastliðnum að henda út á götuna til að reyna að hvetja þau til að fara. Viltu ekki 600.000 kr. til að fara heim? Heyrðu, kannski virkar bara að svelta þig til hlýðni.

Vandinn er sá, og það sem gerir forsendur þessara laga rangar, að einstaklingarnir eru ekki að neita að ástæðulausu. Algengt er að um sé að ræða einstaklinga sem hafa dvalið í langan tíma vegna málsmeðferðarinnar. Stjórnvöld hafa tekið ár og áraraðir í að afgreiða málið. Svo kemur synjun og það er ekki hægt að flytja fólk og það er hérna heillengi og þarna getur verið um börn að ræða. Fólkið hefur aðlagast hér og býr hér og er hér og kannski er einna besta dæmið ungur drengur sem hefur látið í sér heyra í fjölmiðlum, látið sjá sig, tekin hafa verið við hann viðtöl, 19 ára piltur sem hefur verið hér í fimm ár, ef ég man rétt, talar reiprennandi íslensku við fjölmiðla, hefur gengið alla sína menntaskólagöngu á Íslandi, á hér vini, stundar íþróttir. Hann býr á Íslandi. Hann upplifir sig miklu frekar Íslending en nokkuð annað. Hann kom hingað sem barn. Hann réð engu um það. Síðan komast stjórnvöld að einhverri niðurstöðu og tíminn líður og hann verður 18 ára. Nú er ekki nóg með að það eigi að vísa honum úr landi heldur á að setja hann á götuna. Hann er ekki lengur barn, 19 ára, háaldraður maður. Það er eitt dæmi.

Fólk sem er hérna lengi og upplifir sig sem Íslendinga er í þessum hópi. Í þessum hópi eru einstaklingar sem telja sig ekki geta snúið sér neitt annað. Það eru einstaklingar sem eru ríkisfangslausir. Það eru einstaklingar sem hafa annað ríkisfang en íslensk stjórnvöld vilja meina. Af hverju er ekki hægt að flytja þau með valdi? Vegna þess að það er ekki á hreinu hvert á að flytja þau, hvort það er hægt og hvort þau eru ríkisborgarar ríkisins eða ekki. En stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu í sínum kæruferlum og sínum pappírum einhvers staðar á skrifstofum að jú, þú ert þaðan og við viljum að þú farir þangað. Við getum ekki flutt þig þangað af því að stjórnvöld þar kannast ekkert við þig en okkur finnst þú eiga að fara þannig að farðu sjálfviljugur. Viðkomandi heldur því enn þá fram að hann sé allt annars staðar frá. Ókei, þá ferð þú bara á götuna, við vonumst til þess að þú látir þá segjast og farir. Þetta er einn hluti af þessum hópi.

Þetta er eitt sem mér finnst vera allt of lítið í umræðunni. Það er eins og það hvarfli ekki að neinum að stjórnvöld geti, þegar þau taka ákvörðun um umsókn um alþjóðlega vernd, komist að rangri niðurstöðu. Það er eins og íslensk stjórnvöld, einhverjir lögfræðingar úti í bæ, geti ekki haft rangt fyrir sér. Við vitum að það er ekki þannig. Ég hef unnið mál fyrir dómstólum á alls konar hátt þar sem kom í ljós, það komu fleiri gögn og annað, kom á daginn að stjórnvöld höfðu rangt fyrir sér. Stundum er það bara hrein heppni sem verður til þess að hægt er að sanna að þau höfðu rangt fyrir sér. Og hvað gerum við þá? Erum við ekki komin með pattstöðu?

Ég minntist hérna á IOM, stofnunina sem aðstoðar fólk við að fara á milli landa og aðstoðar stjórnvöld við að flytja fólk til heimaríkis. Það eru dæmi um það að stjórnvöld vestrænna ríkja hafi komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að flytja einhvern til Sýrlands, ef við tökum Sýrland sem dæmi, og IOM, alþjóðleg stofnun Sameinuðu þjóðanna, getur ekki flutt fólk þangað vegna hættuástands í landinu. En stjórnvöld voru samt búin að komast að þeirri niðurstöðu að viðkomandi ætti að fara þangað, það væri bara fínt. Stofnunin segir: Við getum ekki flutt þig. Hendum þeim á götuna.

Það gefur augaleið að forsendur þessarar reglu eru rangar. Forsendan er sú að fólk geti farið, en það bara getur það ekki alltaf. Hingað til hefur hugtakið „umborin dvöl“ verið notað til að lýsa þessum aðstæðum, hlutskipti fólksins sem er í þessari stöðu og það hugtak er notað mjög víða í mörgum löndum enn þá. Þetta eru orð sem lögreglan notaði sjálf um þá stöðu þegar einstaklingur hefur ekki rétt til dvalar en það er ekki hægt að flytja hann. Dómsmálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins gaf út sérstaka yfirlýsingu og gaf þessum einstaklingum með því yfirbragð einhvers konar afbrotafólks sem það er ekki, með því að skipta þessu hugtaki út fyrir hugtakið „einstaklingar í ólöglegri dvöl“. Þau áréttuðu að þau eru ekki í neinni umborinni dvöl hérna, þau eru í ólöglegri dvöl. Til þess að sýna það ætlum við að henda þeim á götuna.

Rannsókn sem gerð var í Danmörku árið 2021 bendir á mjög óþægilega staðreynd. Í Danmörku er fólk sett í svona búsetuúrræði með takmörkunum eins og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar er mjög spennt fyrir og mér heyrist hæstv. dómsmálaráðherra vera það líka og að margir séu spenntir fyrir því. Fólk er flutt í slíkar búðir eftir synjun og býr þar ár eftir ár. Þarna alast börn upp. Þarna eru komin hliðarsamfélög. Það sem gerist er að fólk býr þarna árum saman, áratugum saman, jafnvel ævina á enda eða það stingur af og fer í felur. Rannsóknin sýndi fram á það að mjög fáir fara aftur til upprunalandsins úr þessum hópi.

Hvað er ég að reyna að segja? Það sem ég er að reyna að segja er: Þetta er ekki bara það að fólk vilji ekki hlýða ákvörðunum stjórnvalda. Þessir einstaklingar voru ekki að sækja um byggingarleyfi, voru ekki að sækja um eitthvað sem snýst ekki um líf og dauða. Þetta snýst um líf og dauða þessa fólks. Það er forsendubresturinn. Fyrirsögn skýrslunnar, sem er á dönsku og ég ætla að þýða hana lauslega með minni frábæru grunnskóladönsku, er: Ný skýrsla um frávísaða hælisleitendur og heimför. Hin pólitíska stefna mun klúðrast vegna þess að hún byggist á röngum forsendum. Sem sagt, forsendur þessara laga eru rangar og við þessu var varað. Við bentum á það að fólk myndi ekki fara þrátt fyrir að vera svipt húsaskjóli og heilbrigðisþjónustu því að það telur sér raunverulega ekki fært að fara. Og hvað gerðist? Frétt í morgun: Tæplega 60 einstaklingar hafa fengið tilkynningu um þjónustusviptingu. 15 einstaklingar eru án allrar þjónustu. 14 eru farnir af landinu. Niðurstöður dönsku rannsóknarinnar, sem ríma reyndar við mína 15 ára reynslu af þessum málaflokki, benda til þess að þeir einstaklingar sem þó fóru hafi alls ekkert farið heim. Mögulega fóru þeir á götuna í öðru landi þar sem næturfrostið bætist ekki ofan á aðra ógn sem fólki stafar af heimilisleysi. Hver er sú ógn? Jú, algjört varnarleysi gagnvart ofbeldi, misneytingu, árásum, þjófnaði. Mögulega fóru þau á götuna í öðru landi þar sem fólk er ekki svipt heilbrigðisþjónustu þó að það sé svipt öllu öðru. Íslensk stjórnvöld hafa nefnilega ákveðið að reyna að vinna kapphlaupið að botninum. Við erum með mansalsfórnarlömb á götunni. Þessu vöruðum við sérstaklega við. Ég man ekki hvað ég hélt margar ræður hérna uppi í pontu þar sem ég sagði: Það er ekki einu sinni undanþáguákvæði í þessari blessuðu lagagrein sem undanþiggur börn og fólk með alvarlega fötlun og mikla þjónustuþörf. Mjög þröngar undanþágur og ekkert sem undanþiggur fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, ekkert sem undanþiggur t.d. konur sem eru fórnarlömb mansals. Og hvað gerist þegar þú hendir fórnarlömbum mansals á götuna? Það hef ég farið mörgum orðum um. Allt bendir til þess að þau lendi aftur í misneytingunni sem hrakti þau hingað.

Ráðherrar tala um að þeir vilji auðvitað ekki hafa fólk á götunni. Það sagði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hérna í gær. Það er eins og hann heyri það ekki að það er fólk á götunni. Nei, við viljum auðvitað ekki hafa fólk á götunni. Samt ætlar hann ekkert að gera, þetta er ekki hans vandamál. Þau bjuggust við því að fólk myndi fara því þau skildu ekki og skilja ekki enn að forsendurnar eru rangar. Þetta kom allt fram í umræðum hér á þingi en ekki eingöngu í okkar ræðum hér heldur kom þetta fram í umsögnum við málið. Embætti landlæknis, embætti sem ég held að flest okkar treysti, taldi óásættanlegt að svipta fólk rétti til heilbrigðisþjónustu 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar þar sem það að njóta heilbrigðisþjónustu væri grundvallarmannréttindi og vísaði þar til alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, um rétt sérhvers manns til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu. Fyrir utan að það sé ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu geti það boðið heim hættu fyrir aðra, t.d. ef einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem hugsanlega er ekki metin alvarleg við fyrstu sýn.

Rauði krossinn á Íslandi, með alla sína reynslu og þekkingu, m.a. af alþjóðasamstarfi, benti á að fyrirséð væri að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verði heimilislaus án framfærslu og njóti ekki grunnheilbrigðisþjónustu.

Íslandsdeild Amnesty benti á að þetta væru grundvallarmannréttindi og sneru að grunnþörfum fyrir fæði, húsnæði og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Við erum ekki að tala um neina lúxusþjónustu hérna. Amnesty segir: „Mikilvægt er að tryggja að einstaklingar fái notið mannréttinda sinna að fullu þegar fyrir liggur framkvæmdarhæf ákvörðun í málum þeirra.“ Sérstaklega í ljósi þess að slík ákvörðun kemur oft ekki til framkvæmda svo mánuðum skiptir.

Læknafélagið áréttaði að synjun um aðgengi að heilbrigðisþjónustu stangaðist á við grundvallarmannréttindi. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar var mótfallin því að þjónustan félli niður. Mannréttindaskrifstofa Íslands benti á að þetta væru grundvallarmannréttindi, réttur til heilsu og mannsæmandi lífs, og taldi óásættanlegt að svipta fólk þjónustu, skilja það eftir heimilislaust án framfærslu og viðunandi heilbrigðisþjónustu og sagði, með leyfi forseta: „Býður það upp á mansal, ofbeldi og aðra hagnýtingu á aðstæðum viðkomandi.“

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands bendir á að í almennum athugasemdum við frumvarpið komi fram að það gefi ekki tilefni til þess að skoða sérstaklega samræmi þess við stjórnarskrá. Hvorki var vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu í athugasemdum. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er nú ekki meiri anarkistasamtök en svo að hún segir að þetta sé afar óheppilegt. Stofnunin taldi ekki ljóst af lestri frumvarpsins hvort hin breytta regla gæti leitt til þess að einstaklingar féllu utan allrar þjónustu og framfærsluaðstoðar, t.d. á vegum sveitarfélaga. Þetta var óskýrt. Á þetta var bent.

Prestar innflytjenda og flóttafólks segja, með leyfi forseta:

„Ef breytingin nær fram að ganga þá þýðir það að grundvallarþjónusta er varðar heilsu, öryggi og velferð verður tekin frá viðkomandi einstaklingum sem þurfa þá að leita skjóls á götunni, hafi þau ekki yfirgefið landið sjálfviljug. Að okkar mati hlýtur slík framkvæmd af hálfu ríkisins að stangast á við grundvallarstefnu íslensku þjóðarinnar sem byggir á virðingu fyrir mannréttindum og skyldu okkar til að standa vörð um velferð allra sem dvelja á landinu. […] Það er staðreynd að fólk á flótta er viðkvæmur hópur sem er berskjaldaðri en aðrir fyrir því að verða fórnarlömb mansals og ofbeldis. Við teljum afar mikilvægt að hlúa áfram að þessum hópi til þess að hann komist ekki í slíkar örvæntingarfullar aðstæður að það skapi ný vandamál sem hefði afar neikvæð áhrif á þessa einstaklinga og samfélagið allt; sem myndi fylgja ýmis beinn og óbeinn kostnaður við að bregðast við. […] Það er fyrirsjáanlegt að niðurfelling grunnþjónustu þvingar fólk í erfiða stöðu sem aftur skapar álag á önnur félagsleg kerfi eins og til dæmis sveitarfélög og ýmis hjálparsamtök, þangað sem fólk leitar í neyð.“

Þetta voru varnaðarorðin. Með leyfi forseta: „I hate to say I told you so.“ Og ég meina hvert orð. Mér þykir mjög miður að hafa haft rétt fyrir mér. En hvað næst? Í fréttinni sem birtist í morgun kom fram að dómsmálaráðherra hyggist kynna frumvarp um búsetuúrræði með takmörkunum á haustþingi. Þetta úrræði hefur sannarlega verið kallað varðhaldsbúðir af mannúðar- og hjálparsamtökum og verið gagnrýnt. En skýtur það ekki skökku við þegar búið er að henda fólki á götuna að þá eigi að fara eitthvað að pæla í því? Ókei, það kemur frumvarp og hvað svo? Svo þarf að fara í einhverja uppbyggingu. Það er ekki verið að hugsa þetta í réttri röð. Það er verið að búa til vandamál en ekki að leysa þau.

Hvað er ríkisstjórnin að gera í þessari stöðu sem er uppi núna? Það eru tugir einstaklinga sem eru upp á náð og miskunn einstaklinga úti í bæ komnir og hjálparsamtaka sem standa frammi fyrir þeirri dílemmu að hjálpa stjórnvöldum að halda að þetta sé ekki vandamál með því að halda þessum einstaklingum frá ruslatunnunum á Austurvelli, sem gerir það að verkum að stjórnvöld átta sig ekki á því hvað þau eru búin að gera vegna þess að þarna er einhver búinn að grípa boltann. En það getur auðvitað ekki varað endalaust vegna þess að vasar þessara hjálparsamtaka og einstaklinga eru ekki ótæmandi. Ráðherra bendir á sveitarfélögin. Reyndar eru ekki allir ráðherrar sammála um það, hæstv. dómsmálaráðherra virðist gera sér grein fyrir því sem við bentum á hér, að sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á þessu. Félagsmálaráðherra er hins vegar enn þá á þeirri skoðun og bendir á álit Lagastofnunar HÍ. Ég vek athygli á því að það sem Lagastofnun sagði í sinni álitsgerð var ekki það að sveitarfélögin bæru ábyrgð á þessu. Það var pínulítið farið ranglega með það í fjölmiðlum. Niðurstaða Lagastofnunar var sú að 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga grípi svokallaða útlendinga í neyð. Í fyrsta lagi snýst sú grein um að aðstoða túrista sem hafa týnt vegabréfinu sínu og vilja komast heim, snýst fyrst og fremst um að útvega flugmiða og gistingu í nokkra daga, ekki að taka á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun og vilja ekki fara. Forsenda 15. gr. er áfram samstarfsvilji og ekki samstarfsvilji einu sinni heldur ósk viðkomandi um að komast heim. Sú grein dekkar þetta fólk ekki, enda eru sveitarfélögin ekki að taka á móti þessum einstaklingum. Sveitarfélögin eru öll sammála um að þetta sé ekki á þeirra forræði. Ráðherra getur ekki bara yppt öxlum og sagt: Jú, víst.

Hvað sem líður afstöðu þingmanna til þeirrar lausnar sem vænlegust er á þessum vanda, sem er sá að einstaklingar fá synjun og neita að fara, jafnvel þeirra sem finnst rétt að setja á fót búsetuúrræði með takmörkunum, jafnvel þeirra sem myndu vilja loka fólkið alfarið inni, þá hljótum við öll að sjá að lögin sem voru samþykkt þann 15. mars síðastliðinn, og gera það að verkum að við erum búin að skapa nýja ógn við okkar samfélag og við einstaklinga sem þegar voru í mikilli neyð, eru ónýt. Þessi mistök þarf að leiðrétta. Þessi lög þarf að afnema. Við þurfum að vera sammála um það hér.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska. Ef vitnað er í erlendan texta þarf að snara honum yfir á íslensku strax á eftir. (ArnG: Ég gerði mitt besta.))