154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[16:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég tek hjartanlega undir þessi orð hv. þingmanns og ég persónulega myndi fagna því gríðarlega ef það næðist svona samkomulag á einn eða annan hátt. Ég held að það yrði mjög heilbrigt fyrir stjórnmálin yfirleitt ef við gætum loksins leitt til lykta, náð ákveðinni fótfestu um það hvernig orðræðu við stundum. Það sem ég verð var við í umræðunni almennt séð er að þegar það koma upp að því að mér finnst vera gagnrýniverð atriði og ég gagnrýni þau þá verður þetta eins og í ævintýrinu um Nýju fötin keisarans. Það er sendiboðinn sem er skotinn, það er talað um þöggun og ýmislegt svoleiðis og að þetta sé brot á tjáningarfrelsi. Það verður þá brot á tjáningarfrelsi þess aðila að ég sé að gagnrýna skoðun eða athöfn viðkomandi, sem ég næ ekki nokkrum botni í því að þegar ég geri eitthvað gagnrýnivert þá býst ég að sjálfsögðu við því að ég sé gagnrýndur. Það er ekkert flókið við það.

Ég myndi fagna því alveg gríðarlega ef við næðum aðeins að lyfta stjórnmálunum upp úr þessum skotgröfum, eins og hefur verið talað um í langan tíma. Á sama tíma held ég, svona raunsætt sagt, að það muni ekki gerast en ég vona að samtalið í þá átt muni skila okkur eitthvert, aðeins lengra áfram þannig að að lokum þá kannski verðum við komin á stað þar sem mætti segja sem svo að við værum komin með alla vega samkomulag miðað við núverandi umhverfi. (Forseti hringir.) Ég held að það verði alltaf einhverjar umræður sem við þurfum að þoka lengra og lengra eftir því sem líður á. (Forseti hringir.) Hið fullkomna samfélag er ekki alltaf bara stöðugt, við náum því aldrei. Við þurfum alltaf að fara lengra á jaðar einnar eða annarrar áttar. (Forseti hringir.) En, já, ég tek því fagnandi.