154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[16:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir skoðanaskiptin í þessu. Mér fannst það vera þannig þegar ég hlustaði á stefnuræðu forsætisráðherra núna á dögunum að hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir taki vel í þessa málaleitan og ég hef ekki fundið annað hjá þeim stjórnmálamönnum sem ég hef heyrt í en að þetta sé tilraunarinnar virði. Við verðum að muna það að útlendingalögin, þegar þeim var breytt, ég held það hafi verið 2016, þá var það gert í einhverri svona þverpólitískri sátt eða a.m.k. meiri sátt heldur en hefur verið um málaflokkinn eftir því sem þunginn í umræðunni hefur verið meiri núna á síðustu misserum og það var svo sannarlega tilraunarinnar virði. Auðvitað getur það alveg gerst að einhverjir stjórnmálaflokkar vilji ekki taka þátt og þá verður bara svo að vera en ef það eru sex flokkar af átta á Alþingi sammála um að reyna eitthvað þá er það betra en að allt sé í upplausn í umræðunni. Við getum líka litið á það þannig að ef stjórnmálaflokkarnir fara að tala með einhverjum tilteknum hætti þá hafi það mögulega róandi áhrif á umræðuna, af því að ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég fylgdist með umræðunni í sumar þá hræddist ég það mjög þegar ég var að lesa samfélagsmiðlana hversu agressíft fólk stundum er þegar það er að tala um fólk sem er í neyð. Þarna held ég að við stjórnmálamennirnir berum talsverða ábyrgð. Við höfum öll kannski verið heit í umræðunni, öll auðvitað þeirrar skoðunar að okkar málstaður sé réttur, fagur og góður. En með því að koma stjórnmálunum saman þá kannski seytlar sú viðleitni niður í samfélagið allt. Það er a.m.k. þannig að ef stjórnmálaflokkarnir tala með ábyrgari hætti en gert hefur verið undanfarin misseri þá eru meiri líkur til þess að fólkið í landinu geri það líka.