154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:03]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ég held að það sé mjög mikilvægt að ítreka það hér í þessari umræðu að þeir sem eru samvinnufúsir búa enn í úrræðum á vegum ríkisins og halda þeirri þjónustu sem þeir hafa haft sem umsækjendur um alþjóðlega vernd. En jú, staðan er sú að einhverjir aðilar hafa ekki viljað vera samvinnufúsir og hafa ekki viljað hlíta niðurstöðu íslenskra stjórnvalda, jafnvel þó að það sé búið að úrskurða um það á tveimur stjórnsýslustigum og í einhverjum tilfellum jafnvel líka hjá dómstólum. Það frumvarp sem hér liggur fyrir, breyting á 33. gr., er auðvitað mál sem var ítrekað rætt hér við samþykkt svokallaðra útlendingalaga, þetta var það ákvæði sem var mest umdeilt vegna þess að það er flókið. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hver er stefna hv. þingmanns eða Samfylkingarinnar í þessum málaflokki? Hvernig telur Samfylkingin best að bregðast við í þeim tilfellum þar sem fólk hefur farið í gegnum umsagnarferli, hefur fengið synjun á tveimur stjórnsýslustigum en neitar engu að síður að hlíta þeim úrskurði og neitar að yfirgefa landið? Í mörgum tilfellum eru auðvitað þau úrræði fyrir hendi að íslensk stjórnvöld geta flutt fólk aftur til síns heima eða þessa lands sem það kom frá en ekki í öllum tilfellum og það er vandamál, vissulega. Ég viðurkenni það fúslega og það er vandamál sem fleiri lönd glíma við. En spurning mín til hv. þingmanns er: Hver er stefna Samfylkingarinnar? Hvernig er best að takast á við þá einstaklinga sem falla undir þessar lýsingar sem ég hef hér farið með?