154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Staðan er sú á Íslandi, af því að hv. þingmaður nefndi einmitt að fara í skóla, að fjölskyldufólk er aldrei svipt þessari þjónustu. Langveikt fólk er aldrei svipt þessari þjónustu. Fólk sem er tilbúið að vinna með stjórnvöldum að því að uppfylla niðurstöðu íslenskra stjórnvalda er ekki svipt þessari þjónustu, þannig að það fólk sem er tilbúið að vinna með íslenskum stjórnvöldum er enn þá í því þjónustuúrræði sem því hefur boðist hingað til. Þetta er eingöngu sá örlitli hópur sem segir: Nei, nei, nei, ég ætla ekki að hlíta neinu hér.

Jú, það má vissulega segja að við séum ekki eins og öll önnur Norðurlönd því að við erum ekki með þetta búsetuúrræði. Ég held reyndar að við þyrftum bara að ná samkomulagi við Norðurlöndin um það, en þá spyr ég: Er það stefna Pírata að við ættum að vera með slíkt búsetuúrræði?

Ég held að það sé mjög eðlilegt að þeir sem ætla að hlíta íslenskum stjórnvöldum fái áfram þessa þjónustu og við aðstoðum fólk við að komast til síns heima. Heldur má ekki gleyma því í þessari umræðu allri að jafnvel þeir sem fá synjun fá heimkomustyrki. Það er greitt undir þá til heimalandsins. Við erum að styðja fólkið til þess að koma undir sig fótunum aftur á sínum stað. Íslensk stjórnvöld eru því vissulega að leggja mikið af mörkum þessum hópi til handa, sem jafnvel segist ekki vera alveg tilbúinn að hlíta þessu. Ég hef því miklar væntingar til þess að þetta ákvæði sé þess valdandi að fólk segi: Já, ég ætla að vinna með íslenskum stjórnvöldum. Já, ég ætla annaðhvort að fá að búa hér og njóta þessarar þjónustu áfram þangað til hægt er að afla skilríkja, eða: Já, ég ætla að þiggja stuðning frá íslenska ríkinu við að koma mér aftur til míns heima.