154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns með athygli. Nú á ég sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og ég verð að segja það að í fyrsta lagi er ég ekki viss um hver stefna Pírata er né Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Ég er búinn að stúdera þessi skjöl, nefndarálitin. Samfylkingin hefur talað um vinnumarkað og ég get ekki skilið stefnu Pírata öðruvísi en að þeir vilji bara opin landamærin. Það eru 35 milljónir flóttamanna í heiminum, rúmlega það. Það eru 100 milljónir á vergangi, „displaced“ svokallað, og ef það koma skilgreindir flóttamenn til landsins, segjum að það kæmi milljón, 100.000, það koma 2,2 milljónir ferðamanna, á þá Ísland að taka á móti öllum? Ég vil bara fá það á hreint. Sem sagt, Ísland á að taka á móti öllum sem koma hingað sem falla undir skilgreininguna flóttamaður. Það væri gaman að fá svar við því.

Annað. Umsóknarferlið. Segjum að einstaklingi sé neitað um alþjóðlega vernd, á þá að veita honum dvalarleyfi? Ég gat ekki skilið ræðu hv. þingmanns öðruvísi en að þá ætti að veita honum dvalarleyfi. Þá skil ég ekki tilganginn með umsóknarferlinu. Þá er bara miklu betra að sleppa því. Það ætti raunverulega að sleppa því. En það væri gott að heyra álit hv. þingmanns á þessu.

Annað sem ég get upplýst hv. þingmann um: Hann talaði um fyrirheitna landið Kanada, sem er ekki svo mikið fyrirheitna landið þegar það er skoðað. Samkvæmt frétt Reuters 2. september í ár lokaði Kanada landamærum sínum fyrir hælisleitendum, þannig að þeir eru búnir að loka landamærum sínum fyrir hælisleitendum. Það hefur reyndar gengið illa eftir það líka, þannig að það er ekki rétt að Kanada sé fyrirheitna landið í þessum málum, svo langt í frá.

Þetta snýst um að ef einstaklingi er neitað um alþjóðlega vernd þá eigi hann að fá dvalarleyfi. Það skil ég ekki. Til hvers erum við þá með þetta blessaða kerfi? Það er miklu betra að henda því þá burt. Það kostar 15 milljarða að taka bara við dvalarleyfisumsóknum, hleypa öllum inn í landið. Það heitir „open borders“, opin landamæri, og ekkert annað.