154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

útlendingar.

113. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með hv. þingmanni. Mér finnst að við eigum að vera með stefnu sem vit er í. Mér finnst að við eigum að læra af öðrum þjóðum. Og svo ætla ég taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og segja að við eigum að fara vel með ríkisfjármuni og setja þá í að hjálpa fólki sem þarf á því að halda. Það er hins vegar ekki það sem við erum að gera og það er sannarlega ekki það sem þessi ríkisstjórn er að gera með nýframlögðu fjárlagafrumvarpi þar sem kostnaður við þennan málaflokk í víðari skilningi er kominn upp í 15 milljarða. Það eru sannarlega ekki peningar sem fara í það að hjálpa fólki. Þar er mikil kostnaðaraukning sem verður til af þeim lögum sem voru samþykkt hinn 15. mars síðastliðinn og snúast ekki um að hjálpa fólki heldur þvert á móti, að reyna að fæla fólk héðan frá sem það gerir ekki. Það eykur hins vegar pólaríseringu í samfélaginu, setur fólk í viðkvæmri stöðu á götuna og býr til vandamál en leysir þau ekki.

Ég er sammála hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni um að við eigum að hafa stefnu sem vit er í. Á þessum tímapunkti er enginn að tala um einhver opin landamæri. Ég veit ekki einu sinni almennilega hvað þingmaðurinn er að tala um þegar hann talar um opin landamæri. Þetta er rosalega algeng spurning: Hvað getum við tekið á móti mörgum? Eigum að hafa opin landamæri eða ekki opin landamæri? Við erum ekki komin þangað sem mannkyn. Við vorum þar reyndar einu sinni. Við erum bara búin að fara aðeins aftur til baka hvað það varðar. Það er bara eitthvað sem er ekki til umræðu neins staðar. Það er ekki til umræðu á Evrópuþinginu, það er ekki til umræðu hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er bara enginn að tala um þetta. Þannig að ég skil ekki af hverju er alltaf verið að flækja umræðuna og þvæla hana með einhverjum svona útúrsnúningum.

Það sem ég myndi vilja gera — og við erum fyrst og fremst að reyna að gera kerfið okkar hér á litla Íslandi þannig að það sé skilvirkt, mannúðlegt og að vel sé farið með fjármuni — það væri í fyrsta lagi að straumlínulaga kerfið, sem við erum ekki að gera með þeim breytingum sem hafa verið lagðar til. — Ég hef núna tvær sekúndur. Ég flutti 230 ræður um þetta hérna fyrr á árinu þar sem ég kom með ýmsar tillögur um það hvernig hægt væri að bæta þetta kerfi. En ein af þeim tillögum var ekki að henda fólki (Forseti hringir.) í viðkvæmri stöðu á götuna.