154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:11]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur kærlega fyrir framsöguna. Sannarlega af mörgu að taka en ég ætla bara að velja eitt. Mig langar nefnilega að vita afstöðu Viðreisnar almennt til þjóðaratkvæðagreiðslna, þ.e. er Viðreisn með þessu að tala fyrir algerri umbyltingu á íslenskri stjórnskipun, brotthvarfi frá fulltrúalýðræðinu, eða er Viðreisn með þessu að segja að við eigum að kjósa um mál þegar kemur að hugðarefnum Viðreisnar? Því að ef við tækjum fremstu mál eða hugðarefni flokka sem eru með svona svipað fylgi, svipaðan stuðning og þingflokkur Viðreisnar — mér detta í hug skatta- og skerðingarlaus lágmarkslaun hjá Flokki fólksins, mér dettur í hug lögleiðing fíkniefna hjá Pírötum. Af hverju? Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spyr af hverju. Ég spyr þá á móti: Af hverju ekki að kjósa um þessi risamál þessara flokka sem hafa svipað fylgi? Ef Viðreisn er almennt ekki fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum, er það af því að Viðreisn er hrædd? Við hvað er Viðreisn svona hrædd? Af hverju má ekki kjósa um þessi mál? Ég gæti spurt þessarar sömu spurningar héðan og það væri bara gott að fá svar við þeim.