154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:15]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður segir málið vera í sjálfheldu. Það er bara niðurstaða örfárra og reyndar mjög svo fækkandi áhangenda ESB. Það er auðvitað alveg kýrskýrt hvar við stöndum þegar kemur að aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið: Þær hafa verið settar í ótímabundinn dvala. Þeim hefur verið hætt.

En ef við víkjum aftur að framsöguræðu hv. þingmanns, kosningaræðu hv. þingmanns, mætti kalla það — við höfum heyrt þetta allt áður. Það er ræðan um evruna, um evrópsku velferðina, um öryggismálin og svo auðvitað tilfinninganuddið. Það eru þessi órjúfanlegu tengsl við Evrópu sem er bara hægt að rækta í gegnum Evrópusambandið. Þessi ræða hefur verið haldin. Hún var síðast haldin hérna fyrir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu sem var haldin haustið 2021 og þá fengu talsmenn þessarar skoðunar, þessara nákvæmlega sömu viðhorfa, undir 30%. Þá segi ég: Þetta er réttmæt niðurstaða kosninga. Þetta eru skýr skilaboð frá kjósendum. Þetta er vilji þjóðarinnar.