154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki neitt í þessu andsvari, ekki annað en bara að það sé ætlunin að haka í boxið. Hvernig ályktaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013? Hann ályktaði um þjóðaratkvæðagreiðslu. (DME: Við erum búin að halda …) — Já, bíddu, eins og það sé einmitt — nákvæmlega. Það er sem sagt til í orðabók Sjálfstæðisflokksins einu sinni. Það er bara búið að stroka orðið þjóðaratkvæðagreiðsla út úr vinnu- og handbókum Sjálfstæðisflokksins í dag. Það eru akkúrat tíu ár síðan, það er kannski verið að halda upp á að það orð er ekki lengur til í orðabók og handbókum Sjálfstæðisflokksins. En Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur hefur komið að því að segja: Þetta mál á að bera undir þjóðina, leyfa þjóðinni að ákveða næsta skref. Það er ekki að ástæðulausu sem fólk á sínum tíma var bara mjög ósátt við þá niðurstöðu sem kom síðan í kjölfarið, að sniðganga þá ályktun. Og ég minni enn á það að formaður flokksins hefur verið á þingsályktunartillögu um það að leita til þjóðarinnar. Hættulegra er það nú ekki.

En það er greinilega einhver rosa hætta í þeirra huga að fara með þetta mál til þjóðarinnar. Það sem ég óttast hins vegar meira, talandi um Evrópumálin og horfandi á tvo viðbótarþingmenn frá Sjálfstæðisflokknum hér í hliðarsal, er á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er. Gott og vel. Fyrir þessu máli er ég að berjast. Ég vil hvetja Sjálfstæðisflokkinn til að nýta tækifærið til að standa vörð um EES-samninginn. Mér sýnist á öllu að það sé verið að reyna að fremja eitthvert harakiri á EES-samningnum, einum mikilvægasta milliríkjasamningi sem við Íslendingar höfum gert. Ég spyr bara: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að hafa kjark í sér til að standa með EES-samningnum, leggja fram bókun 35? Það mun koma í ljós. Það hefði verið áhugavert að sjá, og það er gaman að fylgjast með því að það er kominn óróleiki meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að þessu. En ég verð að segja að það er umhugsunarefni þegar umræðan er orðin svo þung og mikil innan Sjálfstæðisflokksins um að það eigi ekki einu sinni að standa vörð um EES-samninginn. Öðruvísi mér áður brá.