154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég pínulítið hissa yfir því af hverju það eru ekki einmitt Sjálfstæðismenn sem eru á þessari tillögu, því að þessi tillaga er nákvæmlega það sem ályktun á landsfundi Sjálfstæðismanna snerist um; að treysta þjóðinni fyrir næsta skrefi, halda þjóðaratkvæðagreiðslu um … (Gripið fram í.) halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við eigum að halda áfram (Gripið fram í.) aðildarviðræðum. Evrópusambandið … (Gripið fram í.) Evrópusambandið, virðulegi forseti, er ekki markmið í sjálfu sér, bara alls ekki, (Gripið fram í.) það er fullt af göllum, fullt af kostum. Við sjáum það hins vegar sem leið að bættum lífskjörum, opnara frjálsara samfélagi með efnahagslegan stöðugleika og fyrirsjáanleika. Ég man það fyrir nokkrum misserum síðan þegar við fengum mætan þingmann Íra á fund okkar í Viðreisn, frá systurflokki okkar í Írlandi, til að fjalla um inngöngu Íra í Evrópusambandið. Það er eftirminnilegt að hann sagði: Fyrir okkur Íra var stærsti þátturinn að við inngönguna urðum við óháðari Bretum. Við urðum óháðari Bretum. Þeir höfðu ekki sömu tökin á írsku samfélagi og þeir höfðu í gegnum efnahagsleg sambönd, menningarleg, samfélagsleg o.fl., og við þekkjum alveg þessa sögu. Íranir urðu óháðari Bretum. Ég held að það sé m.a. það sem við skuldum unga fólkinu okkar, að það fái tækifæri og val um það að vera óháðari, að vera ekki alltaf undir þessa séríslensku brotalöm sett sem heitir fákeppni á bankamarkaði, heitir fákeppni á tryggingamarkaði, heitir fákeppni á samgöngumarkaði, dýrasta matarkarfa í heimi, þrefaldir vexti, verðbólga sem er alltaf hærri en í samanburðarlöndunum. Mér finnst ég skulda unga fólkinu að það hafi val um hvaða leið það getur farið fyrir sig og sína inn í framtíðina.