154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:43]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar, gott var það og efnismikið. Mig langar aðeins að bæta við þetta að það sem gerðist síðan eftir kosningarnar 2013 eða fyrir kosningarnar 2013 var það að fjölmargir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, m.a. oddvitar í kjördæmum sem urðu ráðherrar í ríkisstjórn eftir kosningarnar, sögðu nokkrum dögum fyrir þær kosningar skýrt að það ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhaldið á því kjörtímabili. Það var síðan svikið með þessu bréfi sem sent var til Brussel í skjóli nætur. Ég er því ekkert endilega viss um í ljósi þess hve háfleyg kosningaloforðin voru fyrir kosningarnar að það hefði eitthvað þvælst fyrir mönnum eftir þær kosningar að hunsa þjóðarviljann og engu að síður reynt að slíta viðræðum. Hitt er síðan annað mál að það er auðvitað ekki hægt að slíta viðræðum með því að senda bréf án aðkomu Alþingis þegar það er Alþingi sem er búið að samþykkja það að fara í einhvers konar viðræður.

Ég verð að fá að spyrja hv. þingmann núna vegna þess að það hefur talsvert verið rætt um flokk þingmannsins, Samfylkinguna, og Evrópuhugsjónina. Ég hef sjálfur gagnrýnt flokkinn fyrir þá afstöðu að tala með þeim hætti, eins og formaðurinn hefur gert ítrekað, að það eigi ekki að fara af stað með þetta mál vegna þess að það sé ekki hægt að klára það innan kjörtímabils. Mig langar að fá að vita: Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það ef Samfylkingin kemst í ríkisstjórn eftir næstu kosningar að a.m.k. þetta skref yrði stigið, að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður, þegar við vitum það að aðildarviðræður við Evrópusambandið geta tekið talsverðan tíma?