154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:45]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var fyrir rúmlega 20 árum sem Samfylkingin tók það djarfa skref að kanna hug félagsmanna sinna til Evrópusambandsins og Evrópusambandsaðildar vegna þess að þegar við stofnuðum Samfylkinguna þá vissum við að það voru ekkert allir á sama máli um aðild að Evrópusambandinu eða hvort það ætti að standa skýrum stöfum í stefnu flokksins. Niðurstaðan var algjörlega ótvíræð og síðan hefur það staðið skýrum stöfum í stefnu flokksins og gerir það enn þá og við sem berum fána Samfylkingarinnar erum Evrópusinnar og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt það alveg skýrt. Formaður minn hefur hins vegar sagt að hún telji þetta ekki forgangsmál núna. Ég get talað fyrir sjálfa mig og örugglega fyrir munn mjög margra af stuðningsfólki Samfylkingarinnar. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að Evrópusambandsaðildin eigi að vera í forgrunni. Það er mitt mat og ég tel blasa við að það litla skref sem hér er lagt til, þ.e. að gefa kjósendum tækifæri til að greiða atkvæði um framhald aðildarviðræðna, sé það minnsta sem við getum gert og ég treysti því að Samfylkingin standi í lappirnar þegar á það reynir.