154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég átta mig á því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem eru hlynntir Evrópusambandsaðild og vilja gjarnan hafa það efst á blaði, eða ofarlega á blaði, kunni að hafa verið móðgaðir þegar ég var að hrósa þingflokki Viðreisnar áðan fyrir að leggja þetta mál fram og vera trúr sinni sannfæringu hvað það varðar. Ég skynja það alveg hér við að hlusta á tvær mætar þingkonur Samfylkingarinnar sem hafa áratugareynslu úr þessum sal og hafa upplifað tímana tvenna hér og tekið þátt í þessu að það kann að vera svolítið ankannalegt í ljósi þess að formaður flokksins hefur nú ýtt þessu máli Samfylkingarinnar til hliðar og gefið þá Viðreisn aðeins eftir sviðið í því. En ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem eru á þeirri skoðun sem svo skýrt kom fram hjá hv. þingmanni, að vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Ég verð reyndar samt sem áður, virðulegur forseti, að viðurkenna að þær staðhæfingar sem hv. þingmaður las hér upp um það hvernig hún teldi allt verða betra við inngöngu í Evrópusambandið og að með einhverjum hætti þá myndi það hafa þau áhrif að hér væru atvinnutækifæri ungs fólks meiri, við inngöngu í Evrópusambandið. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti aðeins farið betur yfir það hvað hún nákvæmlega á við í þeim efnum því ég veit ekki betur en að mörg ríki Evrópusambandsins séu einmitt að glíma við töluvert atvinnuleysi og sérstaklega í hópi ungs fólks. Ég bið líka hv. þingmann að hafa það í huga að á síðustu árum hefur okkur tekist að byggja upp ofboðslega öflugt nýsköpunarumhverfi þannig að hér hafa frumkvöðlar sem hafa gert hugmynd að milljarða virði, talað um að það sé örugglega ekkert betra land í heiminum að reka nýsköpunarfyrirtæki en einmitt á Íslandi.

Þannig að mín spurning er til hv. þingmanns: (Forseti hringir.) Hvað á hún við þegar hún telur að atvinnutækifærum ungs fólks sé betur búið ef Ísland gengi í Evrópusambandið?