154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[18:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég er ekki móðguð. Ég móðgast ekki þó að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hrósi Viðreisn. Það er ekki þannig. Ég var bara að leiðrétta hv. þingmann sem hélt því fram að í fyrra þegar formaður Samfylkingarinnar var fyrsti flutningsmaður þessa máls þá hafi það verið síðasta málið vegna þess að það var fyrsta þingmannamálið sem mælt var fyrir. Það voru allir í þingflokki Samfylkingarinnar flutningsmenn á þeirri tillögu og hún var borin uppi af Viðreisn og Pírötum ásamt Samfylkingunni eins og þessi tillaga sem við ræðum hér.

Við þurfum ekkert annað, forseti, en að horfa á samsetningu atvinnulífsins til að átta okkur á því að það er einsleitt. Ég vitna bara í orð Gylfa Zoëga hagfræðings þegar hann var að lýsa því, dró upp þá mynd að menntaða fólkið okkar hitti ómenntaða erlenda vinnuaflið sem var að koma hingað í flugstöðinni þegar menntaða unga fólkið okkar var fara út til að vinna og láta hæfileika sína njóta sín, en við værum að kalla hér eftir ófaglærðu fólki til þess að vinna í okkar stóru atvinnugrein sem hér hefur ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar. Sprotarnir geta vaxið á Íslandi (Forseti hringir.) en það er erfitt að vera stór í því samhengi hér á Íslandi og búa við krónuna. Það vitna margar skýrslur um.