154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[19:27]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að bæta því við sem ég nefndi ekki áðan, að ég kem ekki auga á neitt land í Evrópusambandinu sem ég tel standa betur eða framar okkur í neinu sem skiptir máli. Við erum að mati forsvarsmanna fyrrnefnds fyrirtækis, Kerecis, með bestu löggjöf í heimi fyrir nýsköpun. Ég get vottað og staðfest að hið sama gildir um hinar skapandi greinar. Og ekkert af því sem við búum að í þessum efnum höfum við sótt til Evrópu, þvert á móti, við höfum hér svigrúm og frelsi til að hugsa og treysta á okkar eigið brjóstvit og okkar eigin fyrirhyggju í því sem varðar okkar eigin hag og aðstæður hér á Íslandi. Verandi fæddur í Danmörku, hafandi búið í Bretlandi og Bandaríkjunum og víðar, þá ætla ég að votta hér fyrir allra augum og eyrum að það er ekki til neitt það land í heiminum sem ég tel fremra, ákjósanlegra, öruggara og betra. Ég tel það okkur sjálfum fyrst og fremst að þakka. Við höfum staðið í lappirnar gagnvart þeim sem hafa reynt að ásælast fiskinn okkar eða að hafa af okkur ráðin. Ég er ekki viss um að einhverjar mælingar hjá einhverju fyrirtæki í dag séu endilega marktækar. Ég er ekki viss um að við eigum endilega að fara að bera þetta mál upp með þeim hætti sem það er lagt upp hér. En ég skal lúta meirihlutavilja þingsins í því sem öðru. Ég er alveg tilbúinn að skipta um skoðun á þessu sem öðru ef rökin eru til staðar og hyggjuvit og brjóstvit mitt segir mér að gera svo.