154. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2023.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

186. mál
[19:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir. Ástæðan fyrir því að ég spurði um afstöðu til þessa máls er sú að formaður Flokks fólksins sagði aðspurð í blaðaviðtali bara núna á dögunum að sá flokkur ætli sér ekki að mæla með aðild, og það var svo sem vel þekkt staðreynd fyrir. Ég vitna orðrétt í viðtal við hv. þm. Ingu Sæland með leyfi forseta: „En að flokkurinn myndi styðja að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um málið, ef svo bæri undir.“ Þetta finnst mér nefnilega vera meira bara hrein og klár lýðræðisspurning. Þetta er til að mynda lýðræðisspurning sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur sett inn í sína stefnu að eigi að gera, að styðja tillögu sem þessa. Þetta er eitthvað sem mikill meiri hluti flokka hér á Alþingi vill gera þrátt fyrir að sumir þessara flokka vilji ekki ganga í Evrópusambandið. Þannig að mér finnst að við þurfum í umræðunni svolítið að skilja á milli þess að vilja ganga í Evrópusambandið eða þess að vilja styðja þessa tillögu sem hér er.

En mig langar líka segja, af því að hv. þingmaður var að tala um nýsköpunarfyrirtækin og annað, ég var nú að nefna þetta í minni ræðu, að meiri hluti forsvarsfólks nýsköpunarfyrirtækja telur að krónan hafi neikvæð áhrif á starfsemi nýsköpunarfyrirtækjanna. 73,5% aðspurðra töldu það í könnun 2020 og þetta hefur reyndar komið fram margoft áður. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að yfir okkur hangir líka bókun 35 þar sem margir telja að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé undir og enn aðrir telja að sjálft fullveldi þjóðarinnar sé undir. Og úr því að hv. þingmaður er þá mögulega tilbúinn að feta í fótspor formanns síns og samþykkja þá tillögu sem hér er, er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé eitthvað sem við ættum að ganga út úr? Er EES-samstarfið gengið sér til húðar? Er það það sem ég get lesið út úr svörum þingmannsins hér áðan?