154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

Störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í gær vorum við í Flokki fólksins að flytja hér á Alþingi þingsályktunartillögu um lífsnauðsynlegt mál: 400.000 kr. skattleysi launatekna og 400.000 kr. lágmarkslífeyri almannatrygginga. Það sem er stórmerkilegt við þessa þingsályktunartillögu er að þrátt fyrir gott boð til allra þingflokka á Alþingi um að vera með okkur á henni og þar með styðja þetta lífsnauðsynlegt málefni vildi enginn, ekki einn þingmaður frá öðrum flokkum, vera með Flokki fólksins á henni. Ef til vill finnst öðrum þingmönnum þetta allt of há lífeyrislaun og ofrausn að hafa þennan verst setta hóp á 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, það sé einfaldlega of dýrt eða það kosti ríkissjóð mikið. Allt of dýrt? Nei, því að við erum með þetta fullfjármagnað, t.d. með því að skatta strax innborgun í lífeyrissjóði. Það sem er dýrt fyrir okkar ríka samfélag er að hér skuli vera fólk sem er haldið í svo mikilli fátækt að það á ekki fyrir mat, lyfjum, fötum, hvað þá öðrum nauðsynjum sem eru í þeirra augum hálfgerð lúxusvara.

Þá neitar stór hluti láglaunafólks á lægstu launum sér um tannlæknaþjónustu, læknisþjónustu og hefur ekki ráð á óvæntum útgjöldum. Fólkið sem er á lægstu lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins, sem er langt undir fátæktarmörkum og er í sárafátækt, getur á engan hátt framfleytt sér og börnum sínum á mannsæmandi hátt í dag. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur stórhækkað skatta og aukið skerðingar þannig að fátækt fólk er komið í sárafátækt. Það sorglegasta í þessu öllu saman er að við gleymum því veigamesta og ljótasta í þessu ömurlega fátæktarkerfi, þ.e. að það eru börnin sem eru þarna inni í boði ríkisstjórnarinnar. Hvernig í ósköpunum getur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn réttlætt það áratugum saman að hafa börn í þessum aðstæðum, að þau þurfi að standa í röðum með foreldrum sínum til þess að bíða eftir að fá gefins mat? Yfirvöld geta ekki einu sinni tryggt að enginn þurfi að fara í þá niðurlægjandi för með börnin sín að standa í röð eftir mat, að enginn þurfi að neita sér um tannlæknaþjónustu, enginn þurfi að neita sér um læknisþjónustu, einnig að vinnandi fólk neiti sér meira að segja um tannlæknaþjónustu.

Það er eitthvað stórkostlega bogið við það að við viljum ekki reikna rétta framleiðslu og borga hana. Það er ekkert auðveldara en að reikna nákvæmlega hvað einstaklingur eða fjölskylda þarf til framfærslu til að lifa mannsæmandi lífi.